Íslenski hópurinn sem tók þátt í undankeppni HM ungmenna í atskák. — Morgunblaðið/SÍ

Evrópuundanrásir HM ungmenna í netskák hófust í dag. Tefldar voru tvær umferðir en þær verða alls sjö í heildina. Um er að ræða undankeppni sem aðeins Evrópubúar taka þátt í og þrír efstu í hverjum flokki fara í úrslit.  Teflft er á Tornelo vefnum á netinum og tímamörk eru 10+3.

Uppskeran í vinningum á þessum fyrsta degi var rýr en aðeins komu fimm vinningar í hús. Hafa ber þó í huga að í fyrstu umferð sérstaklega tefldu allir íslensku keppendurnir upp fyrir sig stigalega.

Eini vinningurinn í fyrstu umferð kom hjá Vigni Vatnari Stefánssyni í U18 flokknum. Hann lagði að velli austurrískan alþjóðlegan meistara.

Sá austurríski lék skelfilegum leik 13…b5? sem Vignir svaraði með 14.Rxb5! og svartur tapar skiptamun ef hann drepur til baka!

Vinningarnir hefðu mátt vera fleiri en ansi margir voru óheppnir á lokametrunum í tímahrakinu. Betri árangur náðist í seinni umferð dagsins þegar fjórir vinningar náðust.

Íslensku keppendurnir:

U10: Jósef Omarsson, Sigurður Páll Guðnýjarson, Birkir Hallmundarson, Guðrún Fanney Briem og Þórhildur Helgadóttir.

Guðrún náði að komast á blað í þessum hópi og einnig Birkir Hallmundarson með mikilli seiglu.

U12: Tómas Möller og Katrín María Jónsdóttir

U14: Benedikt Briem, Gunnar Erik Guðmundsson, Batel Goitom Haile og Iðunn Helgadóttir

Batel náði í vinning í þessum hóp.

U16: Kristján Dagur Jónsson

Kristján Dagur fékk yfirsetu í 2. umferð og hefur einn vinning.

U18: Vignir Vatnar Stefánsson og Alexander Oliver Mai.

Vignir hefur einn vinning í þessum flokki. Þess má til gamans geta að Vignir fékk afhend verðlaun fyrir meistaramót Skákskólans fyrir mótið.

Mótið heldur áfram á morgun og hefst taflmennska klukkan 15:00. Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson munu sjá um skýringar.

Heimasíða mótsins

- Auglýsing -