Árni lék fyrsta leik Friðriksmótsins 2007.

Við Árni Emilsson sátum aldrei saman í stjórn Skáksambands Íslands (SÍ). Hann hætti sama ár og ég kom inn í stjórnina, árið 1992. Sem ungur maður fylgdist ég með Árna Emilssyni með mikilli virðingu þótt ég þekkti hann lítið sem ekkert.

Ég man vel eftir honum á aðalfundum SÍ. Einu sinni óskaði hann eftir að tillögu, sem honum þótti heimskuleg, yrði vísað út í ystu myrkur. Fundarstjóri vildi ekki samþykkja það sem frávísunartillögu. Ég man ekki hvað málið snérist efnislega um eða hver niðurstaðan varð en Árni hafði örugglega rétt fyrir sér!

Árni kom inn í stjórn SÍ árið 1989 og setti þegar svip sinn á stjórnina. Hann var lykilmaður í byggingarnefnd SÍ og á aðalfundinum 1992, árið sem hann hætti, flutti hann skilaboð um byggingarstyrk frá ríkisstjórn Íslands, upp á 15 milljónir króna, sem skipti um sköpum um að SÍ eignaðist veglegt húsnæði.

Skákþing Íslands var haldið í Grundarfirði árið 1986. Árni var þá útibússtjóri Búnaðarbankans og beitti sér fyrir mótshaldinu. Mótið var eitt það sterkasta í sögunni og vakti þar 14 ára skákmaður, Hannes Hlífar Stefánsson, mikla athygli fyrir góða frammistöðu.

Sjálfur kynntist ég Árna fyrst að alvöru þegar við unnum saman í Búnaðarbankanum og síðar Landsbankanum. Þá urðum við góðir kunningjar og stundum leit ég við á skrifstofu Árna til að spjalla um heima og geyma. Þó mest um skák sem Árna var mjög hugleikin. Í Landsbankanum, þar sem Árni var útibússtjóri útibúsins í Austurstræti, átti Árni frumkvæði að afar vel heppnuðum viðburði sem hét Friðriksmót Landsbankans og var haldið í útibúinu. Fyrsta mótið var haldið árið 2004. Mótið varð ómissandi hluti af jólahaldi skákmanna og er enn.

Í október 2008 hrundi svo bankaspilaborgin. Bankarnir drógu mjög úr öllu markaðsstarfi. Létu lítið fyrir sér fara. Við Árni forðuðumst umræðuefnið Friðriksmótið en þegar áætluð dagsetning var farin nálgast óðfluga kíkti ég við á skrifstofu Árna. „Hvað segirðu um Friðriksmótið – er ekki vonlaust að fá samþykki fyrir því“. Árni horfði á mig í smástund og sagði svo glottandi „Þá er best að spyrja ekki!“ 

Mótið var haldið í desember 2008 og hefur verið haldið síðan – skákmönnum til mikillar ánægju. Meira að segja lifði mótið Covid af og var haldið á netinu í fyrra. Árni kíkti yfirleitt við á mótið eftir að hann hætti í bankanum og lék stundum fyrsta leikinn eða afhenti verðlaun.

Árna verður saknað í Friðriksmótum framtíðar. Ég minnist Árna af miklum hlýhug. Hann átti mikinn þátt í uppbyggingu skákhreyfingarinnar og því að hún eignaðist sitt húsnæði. Án hans væri ekkert Friðriksmót í Landsbankanum. Honum verður seint fullþakkað.

Ég votta aðstandendum hans samúð mína. Skákhreyfingin hefur misst góðan mann.

Gunnar Björnsson,
Forseti Skáksambands Íslands

Ofangreind minningagrein birtist í Morgunblaðinu. Árni var jarðaður, 1. mars 2021 í Vídalínskirkju í Garðabæ.

- Auglýsing -