Hjörvar Steinn að tafli í Íslandsbikarnum. Sigur þar tryggði honum keppnisrétt á Heimsbikarmótinu.

Pörunartré Heimsbikarmótsins í skák, sem fram fer í Sochi í Rússlandi, liggur nú fyrir. Alls taka 206 skákmenn þátt í opnum flokki og þar á meðal fulltrúi Íslands, Hjörvar Steinn Grétarsson (2603). 50 stigahæstu skákmenn heims komast beint áfram í 2. umferð en aðrir, þ.m.t. Hjörvar, hefja leik þann 12. júlí.

Omar Salama verður aðstoðaryfirdómari mótsins. Mikill heiður fyrir Omar að hafa verið valinn í það starf.

Í fyrstu umferð (206 manna úrslitum) mætir Hjörvar hvít-rússneska stórmeistaranum Kirill Stupak (2485).

Ef Hjörvar vinnur þá viðureign þá er hann kominn í 2. umferð (128 manna úrslit). Þar yrði andstæðingur hans rússneski stórmeistarinn Maxim Matlakov (2688).

Takist Hjörvari að leggja hann að velli er pólski stórmeistarinn Radoslaw Wojtaszek (2687) líklegasti andstæðingur í 3. umferð (64 manna úrslitum).

Mögulegir andstæðingar Hjörvars í fyrstu þremur umferðunum.

Ef Hjörvar vinnur Pólverjann sterka yrði langlíklegasti andstæðingur hans í 4. umferð (32 manna úrslitum) enginn annar en heimsmeistarinn Magnus Carlsen (2847)!

Pörunartré mótsins má nálgast hér. 

Að sjálfsögðu mun Skák.is fylgjast grannt með okkar manni í Sochi. Heimildir Skák.is herma að Skákvarpið verði í gangi á meðan Hjörvar teflir.

Heimasíða mótsins

- Auglýsing -