Vignir að svíða hrókssendatafl. Mynd: SMP

Alþjóðlegi meistarinn, Vignir Vatnar Stefánsson (2359), teflir á sínu öðru alþjóðlegu móti í Arandjelovac í Serbíu.

Tvær skákir fóru fram í gær. Í þeirri fyrri tapaði hann fyrir aserska stórmeistaranum Azer Mirzoev (2430) en í þeirri síðari lagði hann búlgarska alþjóðlega meistarann Momchil Petkov (2426) laglega að velli í hróksendatafli. Ingvar Þór Jóhannesson gerir síðari skákinni góð skil á jútjúb.

Vignir hefur 2½ vinning og er í 2.-4. sæti. Í fimmtu umferð sem fram fer í dag teflir hann við serbneska stórmeistarann Miroslav Markovic (2353).

Vignir teflir í þremur 10 manna lokuðum flokkum í Serbíu. Meðalstigin í öðru mótinu, sem nú er í gangi, eru 2425 skákstig. Vignir er næststigalægstur keppenda.

Czech Open er gangi í Pardubice í Tékklandi. Stórmeistararnir Hannes Hlífar Stefánsson (2517) og Guðmundur Kjartansson (2496) eru meðal keppenda.

Fjórða umferð fór fram í gær. Hannes vann Þjóðverjann Ralf Schnbel (2235). Hannes hefur 3½ vinning og er í 3.-7. sæti. Guðmundur tapaði og hefur 2 vinninga.

149 keppendur taka þátt í efsta flokki Czech Open og þar af eru 15 stórmeistarar. Hannes er áttundi í stigaröð keppenda en Guðmundur sá ellefti.

FIDE-meistarinn Hilmir Freyr Heimisson (2317) tekur þátt í alþjóðlegu móti í Árhúsum í Danmörku sem hófst í gær.

Í fyrstu umferð vann Jan Schleicher Christensen (2151). Önnur umferð fer fram í dag.

Átján keppendur taka þátt í mótinu og þar á meðal fjórir alþjóðlegir meistarar. Hilmir er fimmti í stigaröð keppenda.

- Auglýsing -