Fyrsta keppnisdegi NM ungmenna í Færeyjum er lokið. Tefldar voru tvær umferðir og var uppskera íslenska hópsins samtals – 9,5 vinningur af 20 mögulegum. Rennum yfir úrslitin í hverjum flokki:

A-flokkur

Vignir Vatnar vann Danann Adesh Easwaralingam sannfærandi að velli í 1. umferð með hvítu í Catalan. Sömu sögu má segja um Hilmi Frey sem vann Finnan Jarviniemi með svörtu. Reynslan og getumunurinn sögðu til sín í þessum skákum.
Í 2. umferð fengu strákarnir stigahærri andstæðinga. Vignir hafði svart á IM Vestby-Ellingsen. Vignir jafnaði taflið án vandræða og var kominn með vænlegri möguleika þegar honum varð á smá ónákvæmni og þurfti að taka jafntefli.

Hilmir Freyr hafði hvítt á á Norðmanninn FM Gunnar Lund. Eftir frumlega byrjunartaflmennsku urðu uppskipti á mönnum. Staðan var líklega í jafnvægi en þá gerðist eitthvað undarlegt…

Það var í þessari stöðu sem FM Gunnar Lund hefði átt að leika Bxd4+ með nokkuð jöfnu tafli. En skyndilega greip Norðmaðurinn drottninguna í stað biskupsins og drap með henni á d4! Eftir Dxd4+?? drap Hilmir að sjálfsögðu með hrók og Norðmaðurinn gafst upp. Smá heppni hjá Hilmi sem kom sér mjög vel!

Hilmir Freyr hefur byrjað vel og er með 2 vinninga af 2

B-flokkur:
Benedikt Þórisson lenti í vandræðum í byrjuninni í 1. umferð gegn Finnanum Vainikka. Eftir það var erfitt að halda sér inni í skákinni og Benedikt tapaði að lokum. Sama má segja um Kristján Dag sem lék illa af sér eftir byrjunina gegn Svíanum FM Torngren og tapaði liði.
Í 2. umferð hafði Benedikt hvítt gegn Færeyingnum Nielsen. Upp kom ítalskur leikur og Nielsen jafnaði taflið. Benedikt fékk svo á sig sókn á kóngsvæng sem hann réð illa við og tapaði að lokum.

Erfiður dagur hjá Benna í dag en hann á mikið inni og kemur af krafti í skákir morgundagsins

Kristján Dagur var einnig með hvítt gegn Færeyingnum Jacobsen. Kristján fékk yfirburðartafl eftir byrjunina og í raun má segja að Færeyingurinn hafi aldrei séð til sólar eftir það. Öruggur sigur hjá Kristjáni Degi.

Kristján Dagur gat ekki annað en brosað yfir frumlegri taflmennsku andstæðings síns í morgun

C-flokkur:
Benedikt Briem byrjaði af krafti með sannfærandi sigri á Svíanum Grahn. Benedikt stýrði skákinni í hagstætt endatafl og Svíinn sá aldrei til sólar eftir það. Vel útfærð skák hjá Benedikt. Í 2. umferð hafði Benedikt hvítt gegn Finnanum Tasa. Benedikt lenti í tómum vandræðum eftir að Finninn kom honum á óvart í byrjuninni. Með ótrúlegri seiglu náði Benedikt að berjast áfram drottningu undir og eftir mikla baráttu vann hann lið til baka. Upp kom endatafl þar sem Finninn hafði drottningu gegn hrók og biskups Benedikts. Báðir höfðu auk þess nokkur peð. Finninn var tæpur á tíma og endurtók stöðuna nokkrum sinnum með drottningarskákum um allt borð. Hann gætti svo ekki að sér, endurtók stöðuna of oft og Benedikt var fljótur að átta sig á því að hann gat krafist jafnteflis með þráleik. Dómarar mótsins fóru yfir það í útsendingartölvunni og spurðu svo liðsstjóra íslenska liðsins, undirritaðan, hvort þetta væri ekki örugglega þráleikur. Það var umsvifalaust staðfest og jafnteflið handsalað, Finnanum til lítillar gleði.

Hörku barátta hjá Benedikt í dag og góð uppskera

Gunnar Erik hafði hvítt í fyrri skák dagsins gegn hinum efnilega Svía CM Soderstrom. Eftir að hafa valið ónákvæma leið í byrjuninni lenti Gunnar í vandræðum sem hann náði ekki að losa sig úr. Lærdómsríkt tap þar. Í 2. umferð hafði Gunnar Erik svart á Finnann Polkki. Báðir keppendur tefldu mjög vandaða skák og niðurstaðan varð jafntefli að lokum.


D-flokkur:

Mikael Bjarki hafði í fyrri umferð dagsins hvítt gegn stigahæsta keppanda flokksins, Norðmanninum Brattgjerd. Mikael Bjarki fékk góða stöðu eftir byrjunina og komst út í vænlegt endatafl peði yfir. Þá var hann skyndilega sleginn skákblindu og lék af sér liði og tapaði. Svekkjandi tap eftir vel teflda skák. Í síðari skák dagsins hafði Mikael Bjarki svart gegn Finnanum Salonen. Finninn fékk betra tafl eftir byrjunina en Mikael Bjarki varðist af hörku og hafði stillt upp mjög tryggum varnarmúr þegar Finninn náði að brjótast í gegn með lítilli gildru. Mikael tefldi heilt yfir vel í dag en tveir fingurbrjótar í lok skákanna gerðu út um skákirnar.

Mikael Bjarki á mikið inni eftir fyrsta dag mótsins

Tómas Möller hafði svart gegn Norðmanninum Strand í 1. umferð. Tómas tefldi byrjunina vel og að lokum kom upp jafnt endatafl. Smávægileg ónákvæmni hjá Tómasi gaf Norðmanninum skyndilega vinningsmöguleika sem hann nýtti sér vel. Lærdómsrík skák. Í síðari skák dagsins hafði Tómas hvítt gegn Færeyingnum Brestir. Tómas vann skiptamun eftir byrjunina, tefldi framhaldið af mikilli yfirvegun með nokkrum ,,Karpovs-leikjum” og á endanum gaf færeyska vörnin sig og Tómas stýrði vinningnum í höfn af öryggi.

Tómas tefldi vel í dag og hefði eins og Mikael Bjarki getað uppskorið meira

E-flokkur:
Guðrún Fanney hafði í fyrri skák dagsins svart gegn Finnanum Jaakkola. Guðrún Fanney tefldi byrjunina mjög vel og fékk mjög vænleg sóknarfæri gegn hvíta kóngnum sem var einmana og innilokaður á drottningarvængnum. Staðan var hins vegar mjög lokuð og erfitt að finna rétta leið í gegnum vörnina. Á einum tímapunkti gat Guðrún Fanney fórnað riddara í sókninni en það var erfitt að meta framhaldið.


Hér kom …Rb3+! vel til greina og svarta sóknin er erfið við að eiga. Í stað þess lék Guðrún Fanney …b3 og hvítur náði að verjast. Eftir harða baráttu hafði Finninn betur á endanum.
Spennandi skák hjá Guðrúnu Fanneyju.

Í 2. umferð hafði Guðrún Fanney hvítt gegn Færeyingnum Jamil. Eftir rólega byrjun tók Færeyingurinn á sig veika peðastöðu og hleypti Guðrúnu Fanneyju í gegnum vörnina. Hún nýtti sér það vel og vann öruggan sigur.

Guðrún Fanney var mjög einbeitt og ákveðin í dag

Jósef hafði hvítt í fyrstu umferð gegn Finnanum Asikainen. Jósef fékk ágæta stöðu eftir byrjunina en valdi rangt framhald og fékk eftir það erfiða stöðu sem hann gat ekki varið. Eftir skákina var rétta framhaldið skoðað og Jósef var ákveðinn í því að nýta sér það við næsta tækifæri. Í síðari skák dagsins hafði Jósef svart á Færeyinginn Wiberg. Nú tefldi Jósef byrjunina óaðfinnalega, gaf hann andstæðingnum engin tækifæri og fékk yfirburðastöðu. Hann vann svo öruggan sigur. Jósef endaði svo daginn á því að leggja liðsstjórann í borðtennis!

Jósef klár í slaginn í upphafi móts

Aðstaðan á hótelinu og í skáksalnum er mjög góð. Allar skákir í beinni útsendingu, drykkir í boði fyrir keppendur og kaffi og te fyrir foreldra og fararstjóra í biðsalnum við hlið skáksalarins. Færeysku mótshaldarnir boðnir og búnir að bjarga öllu sem þarf að bjarga, eins og þeim einum er lagið. Þar fer fremstur í flokki íslandsvinurinn Finnbjorn Vang sem er einn allra liðlegasti og viðkunnanlegasti maður sem undirritaður hefur hitt. Finnbjorn hefur alltaf nóg á sinni könnu og situr sjaldnast kyrr.

Íslenski hópurinn fékk góða heimsókn í dag þegar Rúnar Berg, okkar maður í Færeyjum, leit við í heimsókn. Rúnar er búsettur í höfuðborginni og gat gefið íslensku keppendunum góð ráð fyrir skákir morgundagsins.

Nokkrir íslensku keppendanna fengu sér gönguferð í bæinn eftir skákir dagsins ásamt foreldrum en þangað er töluverð ganga – enda situr Hotel Føroyar í brekku fyrir ofan höfuðborgina. Útsýnið úr matsalnum og skáksalnum er þess vegna alveg frábært.

Útsýnið er með besta móti!

3. umferð mótsins hefst kl. 9 að íslenskum tíma á morgun.

Eins og áður eru allar skákirnar í beinni útsendingu.

Beinar útsendingar

Heimasíða mótsins

Mótið á chess-results

- Auglýsing -