Dagur Arngrímsson að tafli á Íslandsmóti Skákfélaga.

Ef að líkum lætur munu Víkingaklúbburinn og Taflfélag Garðabæjar berjast um efsta sætið á Íslandsmóti skákfélaga en eftir fyrri umferð „Kviku-deildarinnar“, sem nefnd er eftir aðalstyrktaraðila Íslandsmótsins, eru liðin jöfn að stigum en Víkingaklúbburinn er vinningi á undan. Innbyrðis viðureign félaganna lauk þó með sigri TG, 5:3. Sex lið tefla tvöfalda umferð í efstu deild og er staðan Þessi: 1. Víkingaklúbburinn 8 stig (26½ v.) 2. TG 8 stig (25½ v.) 3. TR 6 stig (22 v.) 4. Skákdeild KR 4 stig (17½ v.) 5. Skákdeild Fjölnis 2 stig (15 v.) 6. Skákdeild Breiðabliks 2 stig (13½ v.)

Í 1. deild fer fram hörð barátta milli Skákfélags Akureyrar og Taflfélags Vestmannaeyja . Bæði lið 8 stig, norðanmenn eiga ½ vinningi meira. Liðin mætast í næstsíðustu umferð í seinni hluta keppninnar.

Í 2. deild er b-lið Víkingaklúbbsins í efsta sæti með fullt hús og í 3. deild er b-lið KR í efsta sæti með fullt hús. Í 4. deild hefur c-lið KR unnið allar viðureignir sínar.

Íslandsmótið fór fram í Egilshöll við góðar aðstæður og má ætla að um 350 manns hafi teflt um helgina. Nokkrir í efstu deild tefldu látlaust frá fimmtudagskvöldi fram á sunnudagsmorgun. Það má greina nokkur þreytumerki hjá hinum þrautreyndu köppum Héðni og Henrik í eftirfarandi viðureignum en tilþrif mótherja þeirra voru glæsileg. Hilmir Freyr tefldi á 1. borði fyrir skákdeild Blika en Guðmundur Kjartansson var á 2. borði fyrir TR:

Hilmir Freyr Heimisson (Breiðablik) – Héðinn Steingrímsson (Fjölnir) Nimzo-indversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 Bb4 4. Bd2

Vinsæll leikur nú um stundir.

4. … 0-0 5. Rf3 d5 6. e3 b6 7. cxd5 exd5 8. Hc1 a6 9. Bd3 He8 10. Re5 Bf8 11. f4 c5 12. 0-0 Bb7 13. Be1!

„Nýr reitur“ og hér er kominn fram einn kosturinn við 4. Bd2.

13. … Rc6 14. Re2?!

„Vélarnar“ telja þennan leik ónákvæman og að mun betra sé 14. Bh4! með vænlegri stöðu.

14. … Re4?

Gáir ekki að sér. Betra var 14. …Dd6.

15. Bxe4 dxe4

16. Rxf7!

Hrekur kónginn á bersvæði. Í framhaldinu kemur biskupinn á e1 sterkur inn.

16. … Kxf7

16. …Dd5 var betra en eftir 17. Rg5 er hvítur peði yfir með hartnær unnið tafl.

17. Db3+ Kg6 18. f5+ Kh6 19. Hf4 Dd7 20. Hh4+ Kg5 21. Rf4 g6 22. fxg6 hxg6 23. Dg8 Dg7 24. Dd5+ Re5

Eða 24. … Kf6 25. Hg4 o.s.frv.

25. Rh3+ Kf6 26. dxe5+ Hxe5 27. Hf4+

– og svartur gafst upp, 27. … Hf5 er svarað með 28. Bc3+ og svarta staðan hrynur.

Á sama tíma fór þessi viðureign fram:

Henrik Danielsen (KR) – Guðmundur Kjartansson (TR)

Drottningarbragð

1. c4 Rf6 2. Rf3 e6 3. d4 d5 4. Bg5 dxc4

Guðmundur valdi að leika 4. … h6 gegn Jóhanni Hjartarsyni í 1. umferð, en tapaði. Tími til að breyta um stefnu.

5. Da4+ Rbd7 6. Dxc4 c5 7. Rbd2 a6 8. e3 b5 9. Dc2 Bb7 10. dxc5 Bxc5 11. Bd3

Taflmennska Henriks í byrjun skákarinnar er algerlega mislukkuð og svartur strax kominn með betra tafl.

11. … Hc8 12. Db1 h6 13. Bxf6 Rxf6 14. 0-0 0-0 15. a4 Db6 16. axb5 axb5 17. Rb3?!

Hann varð að leika 17. He1 og reyna síðan 18. Re4.

17. … Bxe3!

Gott var einnig 17. … Bxf3.

18. fxe3 Dxe3+ 19. Kh1 Rg4 20. Bh7 Kh8 21. Ra5 Ba8 22. Ha3 Db6 23. b4 Rf2+ 24. Kg1

Skárra var vitaskuld 14. Hxf2.

24. … Re4+ 25. Kh1 Kxh7

– Þar féll biskupinn. Hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 22. október 2022.

- Auglýsing -