Tvíburarnir áttu góðan í gær.

Tvíburabræðurnir öflugu Bárður Örn (eló 2143) og Björn Hólm Birkisssynir (eló 2130) hafa gengið til liðs við Skákdeild Breiðabliks. Undanfarin ár hafa þeir verið í Taflfélagi Reykjavíkur.

Þeir ólust upp í stúkunni við Kópavogsvöll þegar Skákakademía Kópavogs (Helgi Ólafsson og Skákskólinn) var með starfsemi þar áður en Skákdeildin var stofnuð.

Þeir eru búsettir í Smáranum og því stutt að fara á æfingar. Þess má líka geta að Birkir faðir þeirra er tvímenningur við Magnús Pálma Örnólfsson (eló 2170) sem kemur úr Bolungarvíkurarmi Skákdeildar Breiðabliks. Bræðurnir munu eflaust stefna á að ná frænda sínum í elóstigum, en ef við þekkjum hann rétt þá verður ekkert gefið eftir í þeirri baráttu !

Það eru ekki margir íslenskir skákmenn sem hafa teflt kappskák við ríkjandi heimsmeistara. Þetta afrekaði Bárður Örn í september árið 2017 á bresku eyjunni Mön þegar hann tefldi við Magnús Carlsen í fyrstu umferð „Chess.com Isle of Man International“:

https://www.youtube.com/watch?v=WUddb03bqqQ

Í sömu umferð á sama stað tefldi bróðir hans við aðra goðsögn, ofurstórmeistarann Alexei Shirov sem var lengi á meðal sterkustu skákmanna heims.

Fræg er svo skák Bárðar Arnars við margfalda sovétmeistarann Alexander Beljavskí í Reykjavíkurskákmótinu árið 2016 þar sem goðsögnin mátti prísa sig sæla að ná jafntefli:

https://www.chess.com/news/view/it-s-always-possible-to-watch-reykjavik-open-6496

Þeir bræður þekkja því vel að tefla á móti verulega sterkum andstæðingum. Og stutt er úr stúkunni við Kópavogsvöll á efstu palla skákarinnar!

Skákdeild Breiðabliks býður þá velkomna!

Bræðurnir eru í hópi ungra skákmanna sem eru að fara í skákvíking til Tékklands í júní og byrjun júlí.

Hópurinn sem er að fara til Tékklands:

  • GM Vignir Vatnar Stefánsson Breiðablik 2482
  • IM Hilmir Freyr Heimisson Breiðablik 2351
  • FM Alexandr Domalchuk-Jónasson TR 2354
  • CM Bárður Örn Birkisson Breiðablik 2143
  • Björn Hólm Birkisson Breiðablik 2130
  • Alexander Oliver Mai TR 2114
  • Aron Þór Mai TR 2077
  • Davíð Kolka Breiðablik 1952

Mótin:

  • Teplice Open 2023 (10.-18.júní)
  • Prag Chess festival 2023 (20.-30.júní)
  • České Budějovice Chess Festival 2023 (1.-9.júlí)

Höfundur: Halldór Grétar Einarsson.

- Auglýsing -