Undirbúningur fyrir næsta keppnistímabil er í fullum gangi hjá meistaraflokksráði Skákdeildar Breiðabliks. Unnið er eftir fimm ára uppbyggingaráætlun hins unga meistaraflokksliðs.
Fimm ára áætlun hins unga Breiðabliksliðs
Kjarninn í meistaraflokkshópnum eru U25 skákmenn og smám saman fjölgar í hópnum og hann styrkist þegar iðkendur í U16 hópnum taka framförum og blandast inn í hópinn.
Vignir Vatnar Stefánsson og Hilmir Freyr Heimisson eru komnir heim úr láni og þökkum við KR-ingum og Vestmannaeyjingum fyrir góða samvinnu.
Fjórir ungir og efnilegir erlendir skákmenn sem allir eru góðir vinir okkar ungu manna hafa svo skráð sig í félagið og munu eflaust koma við sögu á næstu keppnistímabilum.
GM Ivan Schitco eló 2511, 21árs frá Moldóvu. Ivan hefur teflt á fyrsta borði fyrir Moldóvu undanfarin ár. Moldóva lenti óvænt í sjötta sæti á Ólympíumótinu í Chennai á Indlandi þar sem hann m.a. gerði jafntefli á móti Magnúsi Carlsen. Ivan endurtók leikinn svo á EM landsliða árið 2023.
Viðtal við Ivan Schitco eftir seinna jafnteflið við Carlsen
GM Shawn Rodrigue-Lemieux eló 2499, 20 ára frá Québec í Kanada. Hann varð heimsmeistari U18 árið 2022 í Mamaia í Rúmeníu.
FM Nicolai Kistrup eló 2367, 22 ára frá Danmörku. Nicolai stóðs sig mjög vel á OBRO alþjóðlega skákmótinu sem lauk um helgina. Hann endaði í skiptu 3ja sæti og krækti sér í IM-áfanga og hækkaði sig um 31 elóstig með frammistöðu upp á 2492 elóstig.
FM Mikkel Manosri Jacobsen eló 2242, 25 ára frá Danmörku. Mikkel er góður vinur Hilmis Freys og hefur teflt með Taflfélagi Reykjavíkur í Íslandsmóti skákfélaga ásamt því að tefla í Reykjavíkurskákmótinu. Hann er með styrkleika upp á tæp 2400 elóstig þó að stigin séu færri núna eftir smá öldudal.