Ný alþjóðleg skákstig komu út þann 1. júlí. Vignir Vatnar Stefánsson (2526) eykur forskot sitt eftir að hafa komist í fyrsta skipti á toppinn í síðasta mánuði. Adam Omarsson (1970) hækkar mest og tvær ungar stúlkur koma nýjar inn á lista.
TOPP 20
Vignir Vatnar varð ekki saddur við að ná efsta sætinu í síðasta mánuði heldur bætti í. Hann náði í 26 stig í mánuði sem var ekkert sérstakur hjá öðrum sem voru virkir á topp 20 listanum.
NÝLIÐAR
Tvær ungar skákkonur koma nýjar inn á lista í mánuðinum þær Miroslava Skibina (1431) og Katrín Ósk Tómasdóttir (1430), sem var gestur Kristjáns Arnar við skákborðið í vikunni.
HÆKKUN
Adam Omarsson (1970) komst í 100 stiga klúbbinn í mánuðinum og kom sér aftur í námunda við 2000 stigin en á hækkunarlistanum má sjá jafnt unga sem aldna.
STIGAHÆSTU SKÁKKONUR LANDSINS
Olga Prudnykova (2268) er áfram stigahæsta skákkona landsins. Mestu hækkun náði Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (2013) sem hækkaði um 11 stig.
STIGAHÆSTU UNGMENNI (U20)
Alexander Domalchuk-Jonasson (2366) er stigahæsta ungmenni landsins þrátt fyrir að hafa misst 20 stig. Áðurnefndur Adam tekur hæsta stökkið upp í 5. sæti.
STIGAHÆSTIR Á VISKUALDRINUM (50+)
Það er umdeilt í ummælum við þessar greinar hvort viskualdurinn hefjist við 50 ára eða 65 ára aldurinn. Greinarhöfundur hefur því ákveðið að skiptast á að setja inn þessa flokka þangað til bindandi ályktun verður samþykkt á aðalfundi skáksambandsins.
Í 50+ flokknum er Jóhann Hjartarson (2474) efstur en hann náði toppsætinu af Hannesi Hlífari Stefánssyni (2464) í mánuðinum. Helgi Ólafsson (2466) situr á milli þeirra.