Þau leiðu tíðindi voru að berast að alþjóðlegi skákmeistarinn Sævar Jóhann Bjarnason er fallin frá. Sævar hafði lengi glímt við erfið veikindi og hafði taflmennska hans minnkað hin síðari ár af þeim sökum.

Sævar er líklegast sá íslenski skákmaður sem hefur teflt mest í gegnum tíðina og á flestar reiknaðar kappskákir í Íslandssögunni. Sævar varð alþjóðlegur meistari árið 1985 og vann fjölmarga mótasigra yfir langan feril. Sævar varð alloft Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur og varð sigurvegari á opna sænska meistaramótinu árið 1990. Árið 1992 vann Sævar sigur á gríðarlega vel skipuðu Helgamóti í Búðardal og skaut mörgum stórmeistaranum ref fyrir rass.

Það hvað Sævar var duglegur að tefla á mótum innanlands hefur gefið fjölmörgum af okkar yngri skákmönnum í gegnum tíðina dýrmæta reynslu í því að mæta titilhafa. Segja má að Sævar hafi þar verið mjög góð fyrirmynd er að því kemur.

Sævar var um árabil með mjög vel heppnaðan skákdálk í DV þar sem hann var oft með skemmtilega nálgun á skákina og í skrifum.

Þekktasta skák Sævars er líklega þessi hér að neðan gegn Rússanum Sergey Makarichev tefld árið 1973. Rússibana-afbrigði í franskri vörn þar sem svartur fórnar skiptamun en fær mjög hættuleg færi.

Fyrsta sigurskák Sævars gegn stórmeistara var árið 1978 gegn Tékkanum Jan Plachetka. Skemmtileg kóngsindverja skák þar sem Sævar lokar taflinu á kóngsvæng og verst sóknartilburðum Tékkans af öryggi. Tékkinn gaf eftir að skákin fór í bið í gjörtöpuðu endtafli.

Í þessari sigurskák gegn Nick de Firmian sýnir Sævar hvað tveir hrókar geta verið sterkir gegn drottningu, tæknilega mjög flott úrvinnsla hjá Sævari.

 

- Auglýsing -