Íslensku liðin í opnum flokki á EM taflfélaga í Durres, Albaníu fara nákvæmlega eins af stað. Bæði liðin létu Tyrki fara illa með sig, Tyrkjarán ef svo má segja. Víkingaklúbburinn semsagt mætti Gokturk skákklúbbnum frá Tyrklandi og létu flengja sig 6-0 eins og Akureyringar í gær. Vissulega eru Tyrkirnir sterkari á pappír en 0 af 12 hjá íslensku liðunum er undir væntingum herra Arpad Elo upphafsmanni elóstiganna góðu.
Á efri borðunum reyndust Tyrkirnir mun sterkari. Bragi fékk mjög snemma erfiða stöðu. 6…e5? í byrjuninni líklega eitthvað misheppnað. Staðan í 17. leik var strax mjög erfið.
Staðan er það erfið að tölvan stingur upp á leiknum sem Bragi lék 17…Kh8. Svartur getur nánast ekkert hreyft, bisupinn á h6 er fastur og hvítur á endalausa leiki til að bæta sína stöðu.
Flest efstu borðin töpuðu álíka illa en Páll Þórarinsson á fjórða borði var á tímabili „Íslands eina von“. Páll hafði lengi mjög fína stöðu og stóð betur þegar hann var sleginn svakalegri skáblindu.
Páll er vel yfir +1 í tölvunum hér en lék skelfilega af sér 30.Rxf5?? og hvítur verður að gefa eftir 30…Bxf5 31.Hxd8 Bxc2 vaknaður upp við vondan draum. Klaufalegt tap. Niðurstaðan 0-6 tap.
Skákfélag Akureyrar fékk makedónska sveit Prilep sem einmitt tapaði 1,5-4,5 gegn Víkingum í gær. Niðurstaðan í dag varð sú sama. Akureyri vann 4,5-1,5. Rúnar gerði jafntefli á efsta borði og Halldór Brynjar tapaði á öðru borði. Skákir Akureyringa voru ekki í beinni.
Kvennaflokkur
TG mætti sænska liðinu Wasa SK. Niðurstaðan varð 1-3 tap. Jóhanna gerði jafntefli á efsta borði og Guðlaug var með jafntefli á 3. borði. Aðrar viðureignir töpuðust. Kvennaliðið var ekki í beinni.
Í ár eru íslensku liðin þrjú en í fyrra voru heil fjögur lið í Austurríki í mjög skemmtilegu og eftirminnilegu móti! Mótið í ár fer fram í Durres í Albaníu. Íslensku liðin eru Víkingaklúbburinn og Skákfélag Akureyar sem tefla í opnum flokki og Taflfélag Garðabæjar sem teflir í kvennaflokki. Fyrir utan íslensku liðin má benda á að þeir Margeir Pétursson og Óskar Bjarnason tefla með klúbb frá Lúxemborg. Margeir hefur teflt með Taflfélagi Reykjavíkur í keppninni undanfarin ár en TR tók sér frí í ár en koma vonandi sterkir inn að ári!
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results (opinn flokkur) | Chess-Results (kvennaflokkur)
- Beinar útsendingar Chess24 (Opinn flokkur)
- Beinar útsendingar Chess24 (Kvennaflokkur)
- Beinar útsendingar lichess (Opinn flokkur)
- Beinar útsendingar lichess (Kvennaflokkur)