
Bandaríkjamaðurinn Fabiano Caruana varð einn efstur á Sinquefield Cup í St. Louis sem lauk um síðustu mánaðamót. Alls hófu 10 skákmenn keppni en eftir fyrstu umferð varð Pólverjinn Duda að draga sig frá keppni vegna veikinda. Caruana hlaut 5½ vinning af 8 mögulegum en í 2. sæti varð Lenier Domninguez með 5 vinninga og síðan Wesley So með 4½ v. Þessir þrír hafa allir skipt um skáksamband og tefla nú fyrir Bandaríkin.
Mótið í St. Louis og önnur sem fara fram í lok þessa árs skipta öll miklu máli varðandi sæti í áskorendamótinu sem hefst í Toronto í Kanada 3. apríl nk. Þar munu átta skákmenn tefla tvöfalda umferð og sigurvegarinn öðlast réttinn til að skora á heimsmeistarann Ding Liren. Enn er óljóst hverjir hreppa síðustu sætin tvö. Fyrir eru Nepomniachtchi, Caruana, Nakamura, Praggnanandhaa, Abasov og Vidit. Barátta um sætin tvö virðist nú standa á milli So, Giri, Firouzsja og Dominguez.
Hans Niemann rifjaði upp sigur Fischers
Mótið í St. Louis í ár náði ekki sömu athygli og það sem fram fór í fyrra og komst í heimsfréttirnar þegar Magnús Carlsen hætti keppni eftir að hafa tapað fyrir Hans Niemann. Hvorugur þeirra var með í St. Louis en Niemann var hins vegar mættur til Zagreb í Serbíu þar sem fram fór „Skákmót friðarins“. Niemann vann mótið glæsilega, hlaut 8 vinninga af 9 mögulegum, langefstur, en Korobov og Ivantsjúk frá Úkraínu og Króatinn Brkic voru næstir með 5 vinninga.
Niemann hefur ekki náð að hrista af sér orðspor tengt svindli eins og frásagnir af mótinu bera með sér. Talsverð tortryggni mun hafa ríkt á skákstað, m.a. vegna þess að eftirliti var ekki sinnt. Niemann var ánægður með sinn árangur og kvað sigurinn sambærilegan við þann sem Bobby Fischer vann á þessum sama stað árið 1970 og hlaut þá 13 vinninga af 17 mögulegum, tveimur vinningum fyrir ofan Kortsnoj, Smyslov, Hort og Gligoric.
Meðal keppenda í Zagreb var Ivan Sokolov en hann var þá nýkominn frá EM landsliða í Svartfjallalandi þar sem hann var liðsstjóri fyrir Rúmena. Ivan stóð sig alveg bærilega, einkum ef miðað er við hversu lítið hann hefur teflt undanfarið. En hann réð ekki við Bandaríkjamanninn kokhrausta.
Alþjóðlega mótið í Zagreb 2003; 7. umferð:
Hans Niemann – Ivan Sokolov
Ítalskur leikur
1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. c3 Rf6 5. d3 d6 6. 0-0 h6 7. Rbd2 a5 8. He1 0-0 9. Rf1 Re7 10. d4 exd4 11. cxd4 Bb6
Það þykir varasamt að gefa eftir miðborðið með þessum hætti en svartur hyggur á gagnatlögu með d6-d5.
12. h3 d5 13. e5 Re4 14. Bd3 c5 15. Rg3?! Bf5?
Afleikur. Best er einfaldlega 15. … Rxg3 16. fxg3 Bf5 með jöfnu tafli.
16. Rxf5 Rxf5 17. Bxe4 dxe4 18. Hxe4 Dd5 19. Hg4 Kh8 20. Dd3 Rxd4
21. Rg5! hxg5 22. Bxg5 Rf3+?!
Eftir þetta kemur upp endatafl þar sem svartur stendur höllum fæti. Besti leikurinn var 22. … f5 og eftir 23. exf6 Kg8 24. Bh6 Df5 á svartur möguleika að verjast.
23. Dxf3 Dxf3 24. gxf3 Bd8 25. Be3 Be7 26. Kh1 Hfe8 27. f4 Bf8 28. a4!
Vel leikið. Hvítur nær að skorða peð svarts.
28. … Ha6 29. Bd2 c4 30. Bc3 Hh6 31. Kh2 Bb4 32. Hag1 g6 33. Hd1 Bxc3 34. bxc3 He7 35. Hd5 b6 36. Hd4 Hc7 37. Hd6!
og Ivan sá ekki ástæðu til að halda baráttunni áfram. Eftir 37. … Hb7 38. f5! er eftirleikurinn auðveldur.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 9. desember 2023














