Reykjavíkurskákmótið 2024 hefst á föstudaginn í Hörpu. Mótið í ár er í boði Kviku eignastýringar og Brims.

Metþátttaka er á mótinu en 414 keppendur frá 49 löndum eru skráðir til leiks og þar af 93 íslenskir. Metið frá í fyrra var 401 keppandi. Enn fleiri keppendur hefðu orðið í ár hefði ekki komið til þess að loka þyrfti fyrir skráningu vegna plássleysis í Hörpu. 28 stórmeistarar eru skráðir til leiks og þar af eru átta íslenskir.

Stigahæstur keppenda er rúmenska ungmennið Bogdan-Daniel Deac sem er aðeins 22 ára. Þekktastur keppenda er úkraínska goðsögnin Vasyl Ivanchuk sem er jafnframt næststigahæstur.

Hjörvar Steinn Grétarsson er stigahæstur íslenskra keppenda og er 14. í stigaröð keppenda. Aðrir eru Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson, Guðmundur Kjartansson, Vignir Vatnar Stefánsson, Jóhann Hjartarson,  Bragi Þorfinnsson og Þröstur Þórhallsson.  Olga Prudnykova, Íslandsmeistari kvenna, og flóttamaður frá Úkraínu, tekur þátt sem og Lenka Ptácníková, margfaldur Íslandsmeistari kvenna.

Margar sterkar skákkonur taka þátt. Hin kínverska Jiner Zhu (2467) er stigahæst og sú eina sem er stórmeistari í opnum flokki. Indverska drottningin, Tania Sachdev, mætir venju samkvæmt en hún er eitt af andlitum Red Bull. Sennilega er hin búlgarska Nurguyl Salimova heitasta nafnið núna. Hún er ein átta skákkvenna sem teflir á áskorendamótinu í skák í Kanada um réttinn til að tefla heimsmeistaraeinvígi.

Streymarar/áhrifavaldar hafa aldrei verið fleiri en átta slíkir taka þátt. Þekktastar þeirra eru hinar heimsþekktu Botez-systur, Alexandra og Andrea .  Þær hafa meira en 1,3 milljónir fylgjenda. Einnig tekur Anna Cramling líka þátt en hún er dóttir goðsagnarinnar Piu Cramling.  Skákum þeirra er lýst beint á vefnum af heimsþekktum stórmeisturum.

Að lokum viljum við benda á Bodhana Sivanandan, ensk stúlka fædd 2015, og er að margra mati einn efnilegasti skákmaður allra tíma. Kominn með 2088 skákstig þrátt fyrir ungan aldur.

Keppendalistinn

Mótið er sett föstudaginn, 15. mars kl. 15:00.

Aðalstyrktaraðilar mótsins eru Reykjavíkurborg, Kvika eignastýring og Brim.

Einnig styrkja Teva, Algalíf, Íslandsbanki, Guðmundur Arason, Landsbankinn, Íslenskar getraunir, Bláa lónið og Kemi, FIDE, Chessable og Chess.com myndarlega við mótshaldið.

Allir í Hörpu!

Heimasíða mótsins

- Auglýsing -