Vignir Vatnar að tafli.

Vignir Vatnar Stefánsson er í banastuði á lokuðum GM flokki í Kronborg í Danmörku. Vignir hefur 3,5 vinning eftir 4 umferðir. Með honum í flokknum eru Hilmir Freyr Heimisson og Aleksandr Domalchuk-Jonasson sem einnig eru að standa sig vel.

Tefldar eru tvær umferðir á dag nema í lokaumferðinni og í dag fóru fram þriðja og fjórða umferð.

Í þriðju umferðinni hafði Vignir svart gegn Jeppe Hald Falkesgaard (2353). Eftir frumlega byrjanataflmennsku hafði Vignir betur í miðtaflsflækjunum.

Hvítur hótar að vinna e4 peðið til baka en Vignir fann skemmtilega leið. 36…Df6!? 37.Kg2 Dxc3 38.Rxe4 og nú…

38…Hxg3! 39.Rxg3 Dxd2 40.Hxd2 Hxe1 og svartur stendur mun betur og Vignir hafði sigur, raunar mátaði hann andstæðing sinn skemmtilega!

Hilmir Freyr Heimisson virðist líka í góðum gír og hann var með Sune Berg Hansen (2513) allt að því í köðlunum í miðtaflinu en hinn reyndi danski stórmeistari varðist vel. Full vel þó kannski því hann var við það að snúa taflinu sér í vil í tímahraki.

Hér hefði 39…Bxf3 40.Dxf3 Dh6+ og svo Dxd6 gefið svörtum unnið tafl. Hvítur á ekki sömu leið og í skákinni. Í staðinn tefldist 39…Dh5+ 40.Hh3!! Bxh3 41.Df8! og hvítur nær þráskák, þráskák sem hefði ekki verið möguleg með svörtu drottninguna á d6 þar sem hún valdar f6-reitinn. Vel sloppið en heilt yfir sanngjörn úrslit eftir góða taflmennsku hjá Hilmi.

Aleksandr Domalchuk-Jonasson gerði jafntefli við danska alþjóðlega meistarann Martin Haubro með svörtu. Sasha beitti Caro-Kann vörn og lenti í smá vörn en komst í hróksendatafl peði undir með öll peð á sama væng sem hann hélt auðveldlega.

Í fjórðu umferðinni hafði Vignir hvítt á IM Uffe Vinter-Schou (2340). Vignir beitti skemmtilegri nýlegri hugmynd þar sem hvítur nær hróksskák á e3 gegn Benoni uppstillingu svarts. Skákin að einhverju leiti óður til „non-castling chess“ sem Kramnik er hrifinn af.

Vignir virtist hafa góð tök á stöðunni framan af en taflið varð mjög flókið í kringum og eftir tímamörkin. Vignir virtist þó ná yfirhöndinni aftur þegar biskup hans náði bólfestu á f5 reitnum.

HIlmir Freyr að tafli á EM 2023 einmitt gegn Tor Frederik Kaasen!

Hilmir Freyr mætti Norðmanninum og alþjóðega meistaranum Tor Frederik Kaasen (2445) sem hann lagði einmitt að velli eftirminnilega á EM landsliða 2023 í frægum sigri á Norðmönnum. Hér endurtók Hilmir leikinn og nú með svörtu!

Hlmir beitti slavneskri vörn, afbrigði sem hann fékk tvisvar upp á Íslandsmótinu á dögunum. Byrjunin virðist henta Hilmi vel og hann náði góðu frumkvæði sem leiddi til þess að Normaðurinn reyndi að verjast í endatafl en líkt og í skákinni á EM hafði Hilmir betur þar.

Hilmir mat taflið rétt. Samstæðu frípeð svarts nægja til vinnings þar sem umframtvípeðið ræður úrslitum. Væri það ekki til staðar gæti hvítur varist með kóng á g2 og biskup á e2 og fórnað á peðin þegar það kæmi peð á f3 reitinn. Með umframpeð er sú vörn ekki til staðar.

Fínn sigur hjá Hilmi sem virðist í fantaformi!

Eina tap strákanna til þessa kom í fjórðu umferð hjá Sasha gegn GM Vitaly Kunin (2525). Skákin virtist nokkuð vel tefld en Kunin hafði að lokum betur. Okkar maður missti af ótrúlegri leið til að ná jafntefli.

Aleksandr lék 38…g6? sem leiðir líklega til taps. 38…Bxd6 39.exd6 Dd5 ætti að duga til jafnteflis en ótrúlega leiðin er 38…c3!! sem lokar flóttaleið kóngsins. Eftir 39.bxc3 þá er í lagi að leika  39…g6 sem hótar máti. 40.hxg6 fxg6 41.Dc4+ Kh8

Nú er 42.f5 eina leiðin til að verða ekki mát, en þá kemur 42…Dh5+ 43.Kf4 g5+ 44.Ke4

Eftir 44…Dh1+ sést hvað c3 peðið er mikilvægt. 45.Kd3 Dd1+ og svartur nær þráskák!

Sama leið í skákinni eins og hún tefldist hefði gefið hvítum c3 reitinn fyrir kónginn, Sasha valdi aðra leið á svart en það dugði ekki til.

Vignir og Hilmir í fínum málum eins og sjá má. Sasha má þokkalega vel við una líka og vonandi halda strákarnir áfram á þessari braut.

Fimmta og sjötta umferð fara fram á morgun. Í fimmtu umferð hefur Hilmir hvítt gegn Vigni en Aleksandr Domalchuk-Jonasson fær hvítt á stórmeistarann Sune Berg Hansen.

- Auglýsing -