Vignir Vatnar Stefánsson (2500) hóf í dag leik á opnu móti í Portúgal, Leca Chess Open. Vignir er númer 3 í stigaröð á þessu 209 manna skákmóti. Auk Vignis eru með í för þeir Benedikt Briem (2148), Theodór Eiríksson (1638) og Eiríkur Orri Guðmundsson (1517).
Tefldar verða 9 umferðir og eru tveir tvöfaldir dagar, sá fyrri þeirra á morgun.
Í skák dagsins hafði Vignir svart gegn heimamanninum Paulo Pinho (2103). Þrátt fyrir stigamuninn veitii hann Vigni hörkuskák en Vignir virkaði þó aldrei í neinum vandræðum og virtist hafa góða stjórn á stöðunni.
Benedikt Briem vann líka sigur í sinni skák en hann lagði Spánverjann Alejandro Herreros (1899). Teodór laut í dúk gegn stigahærri andstæðingi en faðir hans, Eiríkur vann fínan sigur gegn stigahærri skákmanni, Pedro Marinho (1763) frá Portúgal.
Á morgun er tvöföld umferð. Vignir mætir spænskum WFM Ines Prado (2235).
Fleiri Íslendingar verða á sýningarborðum en Benedikt Briem hefur svart gegn Irakli Akhvlediani (2363) FIDE meistara frá Georgíu. Eiríkur fær líka skák á sýningarborði eftir góðan sigur í fyrstu umferð. Hann mætir þar Jose Manuel Cabete (1893).