Evrópumóti ungmenna í skák lauk í dag í Prag. Vinningasöfnun dagsins var nokkuð góð. Íslenski hópurinn lagði upp með að mæta einbeittur og þolinmóður til leiks enda er það algengt á mótum sem þessum að keppendur missi fókusinn í lokaumferðinni. Við stefndum þess vegna að því að nýta okkur frekar möguleg mistök andstæðinganna.

Samheldinn hópur á leið á skákstað

Karma var fyrstur að ljúka sinni skák og vann hann öruggan sigur. Einnig unnu Miroslava, Emilía Embla, Sigurður Páll og Gunnar Erik. Jafntefli gerðu Katrín Ósk, Halldóra, Guðrún Fanney, Markús Orri Óskarsson, Sigurbjörn og Markús Orri Jóhannsson. Aðrir töpuðu sínum skákum.

Emilía Embla kórónaði gott mót og vann ákaflega vel heppnaða skák í sinni uppáhaldsbyrjun, Pirc-vörn. Hún tók stjórnina snemma og lét frumkvæðið aldrei af hendi. Takið eftir mögnuðu ferðalagi hvítreitabiskups svarts.

Emilía Embla eins og sól í heiði

Sigurður Páll vann sína skák með svörtu mönnunum gegn sterkum sænskum skákmanni. Stöðubaráttan var spennandi og taktíkin gekk vel upp í lokin eftir vandaða taflmennsku hjá okkar manni.

Sigurður Páll Guðnýjarson
Úrslit 9. umferðar

Guðrún Fanney Briem fékk flesta vinninga Íslendinganna á mótinu, 5 talsins. Næst komu þau Halldóra, Iðunn, Birkir, Emilía Embla, Karma, Sigurður Páll og Miroslava með 4 vinninga. Hæst í stigasöfnun voru Birkir (+81), Guðrún Fanney (+69), Gunnar Erik (+37), Emilía Embla (+27) og Theódór (+27). Einnig má geta þess að Karma Halldórsson kemst inn á stigalista eftir mótið með 1576 stig.

Það má segja að Evrópumótið hafi verið vel heppnað að mörgu leyti. Skipulag mótshaldara var með ágætum og aðstæður til sóma, þó sumarhiti hafi á köflum verið talsverð áskorun fyrir íslenska hópinn.

Stund milli stríða

Íslensku keppendurnir stóðu sig með sóma, lögðu sig alla fram við undirbúning, taflmennskuna og yfirferð skáka. Samheldnin í hópnum var mikil, óháð aldri, og frístundir nýttar til sameiginlegra leikja, svo sem til að spila, fara út í fótbolta og tefla gamniskákir.

Þjálfarar íslenska hópsins voru Björn Ívar Karlsson, Daði Ómarsson, Gauti Páll Jónsson og Ingvar Þór Jóhannesson og fórst þeim verkið vel úr hendi og ganga sáttir frá borði.

- Auglýsing -