Mynd frá verðlaunaafhendingunni

Vignir Vatnar Stefánsson vann í dag glæsilegan sigur á alþjóðlegu opnu móti Internacional de San Cristóbal de La Laguna sem fram fór á Tenerife á Spáni. Greint var frá því fyrr í dag hér á Skak.is en förum aðeins dýpra í gang mála í dag í þessari frétt!

Fyrir lokaumferðina var Vignir í efsta sæti ásamt Mike Ivanov, FIDE-meistara frá Kanada sem var að eiga frábært mót. Verkefni Vignis í lokaumferðinni var hvítt gegn stórmeistaranum Merab Gagunashvili (2563) sem var stigahæsti skákmaður mótsins. Mike Ivanov fékk á meðan svart gegn Fransisco Fiorito, ungum Argentínumanni sem er greinilega gríðarlegt efni, fæddur 2010.

Leiðin að sigrinum hófst í raun í gærkvöldi. Vignir fór skiljanlega í þá vinnu að reyna að meta hvernig honum bæri að nálgast lokaumferðina. Ef hann væri með bestu oddastigin þá myndi honum líklegast nægja jafntefli gegn Merab en þá mætti Mike ekki vinna með svörtu, heldur bara gera jafntefli. Þessi sviðsmynd og sviðsmyndin ef að Vignir gerði jafntefli og Fiorito ynni þurfti að greina.

Eftir smá heimildavinnu var orðið ljóst að Vignir myndi alltaf hafa betur gegn gegn Mike Ivanov á oddastigum. Hinsvegar var hann ekki öruggur ef jafntefli yrði gegn Merab á meðan að Fiorito ynni sína skák. Þá hefði málið vandast, Vignir hefði unnið í flestum sviðsmyndum en Fiorito hefði getað tekið hann á oddastigum með hagstæðum úrslitum í öðrum skákum.

Birkir Ísak var í lykilhlutverki bakvið tjöldin!

Vignir hélt því inn í nóttina nokkuð viss um stöðu mála. Með hjálp tímamismunar var undirbúningur fyrir skákina hinsvegar kominn á fullt skrið! Birkir Ísak Jóhannsson hefur unnið mikla vinnu bakvið tjöldin við að hjálpa Vigni við undirbúning skák. Á daginn kom að gagnagrunnsskrá sú sem Birkir Ísak kom til Vignis og hann skoðaði um morguninn hafði úrslitaáhrif!

Vignir var undirbúinn vel fram í skákina og 17.Hxe6! og 18.Rc6 var allt í undirbúningsvinnu Birkis fyrir skákina og Vignir því með 1:30 á klukkunni í 20. leik!

Vignir fékk þægilegri stöðu með biskupaparið og fór svo í endatafl sem var örlítið þægilegra á hann en nánast engar líkur á að Vignir myndi tapa skákinni. Þegar leið á fór Vignir hreinlega að yfirspila Georgíumanninn í endataflinu. Kóngur hans leiddi leiðina og b-peðið hóf frægðarför sem endaði með uppgjöf Gagunashvili.

Vignir kampakátur í leikslok. Mynd: Dagur Ragnarsson.

Glæsilegur árangur hjá Vigni. Hann endaði með 7,5 vinning af 9 og hækkar að sjálfsögðu á elóstigum og er nú með 2543 elóstig. Stíflan vonandi brostin, hans fyrsti sigur á sterku alþjóðlegu móti af þessu tagi með fjölda stórmeistara meðal keppenda. Næst á dagskrá er annað mót á Spáni áður en Vignir heldur til Búdapest til móts við íslenska liðið.

Aleksandr tapaði sinni skák í lokaumferðinni á meðan að Dagur Ragnarsson gerði jafntefli í sinni skák. Aleksandr hækkaði um 6 stig á mótinu en Dagur stóð nokkurn veginn í stað. Heilt yfir fínt mót hjá íslensku strákunum.

- Auglýsing -