Það er óhætt að fullyrða að Íslendingar hafi aldrei áður sent jafnmarga keppendur til leiks eins og nú gerist á EM ungmenna sem fram fer í Prag í Tékklandi. Í hinum ýmsu aldursflokkum pilta og stúlkna frá 8 til 18 ára eigum við 23 keppendur. Þau eru: Miroslava Skibina (8), Katrín Ósk Tómasdóttir (10), Halldóra Jónsdóttir (12), Emilía Embla Berglindardóttir (12), Guðrún Fanney Briem (14), Katrín María Jónsdóttir (16), Iðunn Helgadóttir (18), Haukur Leósson (10), Pétur Úlfar Ernisson (10), Karma Halldórsson (10), Örvar Hólm Brynjarsson (12), Birkir Hallmundarson (12), Tristan Fannar Jónsson (12), Jósef Omarsson (14), Sigurður Páll Guðnýjarson (14), Theodór Eiríksson (14), Mikael Bjarki Heiðarsson (16), Markús Orri Óskarsson (16), Markús Orri Jóhannsson (16), Benedikt Þórisson (18), Adam Omarsson (18), Gunnar Erik Guðmundsson (18) og Sigurbjörn Hermannsson (18).
Peð eru líka sóknarmenn
Orðatiltækið kallast á við tilvitnun úr frægu riti besta skákmanns 18. aldar, Francois-Andrés Danicans Philidors: Peðin eru sál skákarinnar. Sumir hafa haldið því fram að setninguna eina sér hafi mátt lesa sem hvatningu til uppreisnar. Þau urðu örlög franska aðalmannsins, sem var ekki síður frægur fyrir tónsmíðar sínar, að eftir frönsku stjórnarbyltinguna 1789 flúði hann frá París til London þar sem hann lést árið 1795. Mér er til efs að Philidor hafi í riti sínu hvatt lesendur sína til að fylkja peðunum fram á vígvellinum án tillits til stöðu léttu mannanna og „þungu fallstykkjanna“. Í viðureignum fremstu meistara finnast fá dæmi þess að eftir t.d. 12 leiki hafi öllum peðum, hvíts eða svarts, verið leikið fram, sumum oftar en einu sinni. Þetta gerðist þó í skák Nepomniachtchis og Giris sem fram fór í kappskákhluta Sinquefield-mótsins í St. Louis sem nú stendur yfir. Það er ekki auðvelt að raska ró besta skákmanns Hollands en það tókst að þessu sinni.
Sinquefield-mótið í St. Louis; 3. umferð:
Jan Nepomniachtchi – Anish Giri
Nimzo-indversk vörn
1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 Bb4 4. e3 0-0 5. a3 Bxc3+ 6. bxc3 d6 7. f3 Rc6 8. e4 De8 9. h4!?
Með þessum leik byrjar ballið.
9. … b6 10. h5 Ba6 11. Ha2 Ra5 12. g4
Sjá stöðumynd 1
Peðin öll komin fram og hrókurinn á a2 horfir fast á g2-reitinn!
12. … Dc6
Dálítið skrítinn leikur. Hví ekki 12. … Bxc4 strax?
13. Hg2 Bxc4 14. Bxc4 Dxc4 15. Re2 Rd7 16. g5
Það virðist allt í himnalagi hjá Giri því hvítur á aðeins einn möguleika á gegnumbroti.
16. … e5 17. g6 fxg6?
Lítur vel út en 17. … h6! var best, t.d. 18. Bxh6 gxh6 19. Dd2 Kg7! og sókn hvíts rennur út í sandinn.
18. hxg6 Hxf3
Hann mátti ekki leika 18. … h6 vegna 19. Bxh6! gxf6 20. Dd2 með vinningsstöðu.
19. gxh7+ Kh8 20. Hhg1 Hf7 21. Bh6!
Glæsilega leikið en svartur getur samt varist.
21. … gxh6 22. Hg8+ Kxh7 23. Hxa8 Rf6?
Tapleikurinn. Eftir 23. … Dc6 eða 23. … Rb3 er staðan í jafnvægi.
24. dxe5! Rxe4 25. Dc1! Rg5 26. Hxg5! Dh4+ 27. Hg3 Dh1+ 28. Hg1 Dxa8 29. Dc2+ Kh8 30. Dg6 Df8
31. e6!
Þessi skemmtilegi peðsleikur ræður að lokum úrslitum því að hrókurinn á engan góðan reit.
31. … He7 32. Hh1 Hh7 33. Hf1 Dd8 34. Hf7! Hxf7 35. exf7 Df8 36. Df6+ Kh7 37. Rf4!
og Giri gafst upp.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 24. ágúst 2024