Sveit Taflfélags Reykjavíkur varð hlutskörpust í Atskákkeppni Taflfélaga sem lauk í gærkvöldi „á heimavelli“ TR í skákhöllinni í Faxafeni. Þátttaka var með fínasta móti þar sem 14 sveitir mættu til leiks og skákmenn í heildina um 100 talsins.

TR hafði byggt upp góða stöðu eftir fyrri keppnisdag og lagt að velli sína helstu keppinauta með innbyrðis sigrum gegn Fjölni, Breiðablik og SA. Þrátt fyrir það munaði aðeins 2 heildarvinningum á TR og Fjölni og ljóst að allt gat gerst á öðrum keppnisdegi.

TR byrjaði seinni keppnisdaginn á því að leggja Vestmannaeyinga að velli 4-2. Breiðablik lagði Fjölni 3,5-2,5 og bilaði breikkaði því á toppnum. Hafi TR-ingar ætlað að fagna of snemma voru þeir dregnir niður á jörðina hið snarasta í 7. umferð því þrátt fyrir enn einn innbyrðissigurinn, í þetta skiptið 3,5-2,5 gegn KR þá náðu Fjölnismenn í 6-0 sigur og minnkuðu muninn verulega.

Í áttundu umferð náðu TR-ingar hinsvegar í sinn fyrsta 6-0 sigur og skildu Fjölnismenn eftir heilum 4 vinningum á eftir TR. Í þokkabót höfðu TR-ingar betur í öllum oddastigum og því munurinn í raun 4,5 vinningur.

4-2 sigur gegn baráttuglöðum Blikum-b í lokaumferðinni dugði til og TR-ingar enduðu í efsta sæti með 39,5 vinning. Fjölnismenn enduðu 2 vinningum á eftir TR sem er í raun ótrúlega mjótt á munum miðað við að TR unnu 9 viðureignir en Fjölnismenn 5.

Úr viðureign TR og Fjölnismanna (Mynd: Helgi Árna)

Þriðja sætið kom í skaut Akureyringa eftir fínan endasprett

(Mynd: Helgi Árna)

Fjölnismenn eru ríkjandi Íslandsmeistarar Skákfélaga en urðu að sætta sig við silfrið í atskákinni.

(Mynd: Helgi Árna)

Taflfélag Reykjavíkur náði nú í fysta skipti í fjögurra ára sögu keppninnar að verða hlutskarpastir Taflfélaga í atskák.

(Mynd: Björn Ívar)

Að öðru ólöstuðum var Jón Viktor Gunnarsson prímus-mótorinn. Eftir tap í fyrsta umferð gegn TR-b þar sem Jón Viktor missti niður unnið tafl virtist hafa kviknað á þessum hæfileikaríka skákmanni. Jón Viktor hreinsaði rest og endaði með 8 vinninga af 9 mögulegum. Reynsluboltarnir Þröstur og Margeir voru líka ansi traustir, enduðu báðir með 6 vinninga af 9 og voru mjög stöðugir.

Þetta mót virðist vera komið til að vera, skákmenn virðast hafa gaman af þessu móti og ef eitthvað er gæti verið tilefni til sóknar frekar en að tefla of passíft með þetta mót!

- Auglýsing -