Vignir kampakátur í leikslok. Mynd: Dagur Ragnarsson.

Vignir Vatnar Stefánsson gerði enn eitt jafntefli við 2600+ stórmeistara og er að standa sig vel á sterku EM einstaklinga sem fram fer í Petrovac í Svartfjallalandi. Vignir gerði jafntefli gegn sterkum spænskum landsliðsmanni og stendur vel að vígi. Fyrir umferðina hafði Vignir 3,5 vinning og var efstur Íslendinga. Aleksandr Domalchuk-Jonasson og Helgi Áss höfðu 3 vinninga, Guðmundur 2,5 vinning og Hannes 2 vinninga.

Vignir hafði svart gegn spænska stórmeistaranum Alan Pichot (2630) sem hefur þó teflt meira og minna allan ferilinn fyrir Argentínu, hvaðan hann er. Vignir beitti sama afbrigði í Frakkanum og Aleksandr Domalchuk-Jonasson gerði gegn Sergei Grigoriants fyrr í mótinu.

Vignir var með sitt á hreinu í byrjuninni og varði aðeins verra endatafl. Vignir fórnaði peði til að fá virka menn og Pichot sá enga leið til að bæta stöðuna og bauð jafntefli í 31. leik.

Við nefndum í uppgjöri 5. umferðar að andstæðingur Aleksandrs, Giga Quparadze tefldi yfirleitt kappskák eins og hraðskák. Sú spá raungerðist heldur betur…mögulega hafði það eitthvað með það að gera að Quparadze virtist þekkja afbrigðið betur en hinsvegar hefur iðullega sést til Quparadze með meiri tíma á klukkunni þegar skákinni er lokið heldur en þegar hann hóf hana!

Georgíumaðurinn náði mest 1,5 klukkutíma tímaforskoti og lék nánast öllum erfiðu vinningsleikjunum allt að því samstundis. Öll skákin fram að 23.Kh2?? hafði teflst áður. 23.Kf1 þvingar svartan líklega í að ná jafntefli með þráskák sem hefst með 23…Hxg2! Stundum er skákin harður skóli!

Helgi Áss gerði jafntefli með hvítu gegn serbneskum alþjóða meistara kvenna. Sú serbneska var með Helga lengst af „í köðlunum“ en Helgi náði að standa af sér vörnina.

Guðmundur missti niður unnið endatafl með svörtu gegn búlgörskum FIDE meistara. 34…h4?? var of snemma á ferðinni þegar betra var að fara beint í að virkja kónginn 34…Kc6 og svartur ætti að vinna. Ólíkt Guðmundi.

Hannes náði að leggja úkraínskan CM að velli með svörtu í tvísýnni skák. Hannes missti af einhverjum vænlegum leiðum í flókinni stöðu en hafði betur að lokum.

Heilt yfir umferð aðeins undir væntingum. Vignir hefur nú 4 vinninga og er eftir sem áður efstur Íslendinganna. Helgi hefur 3,5 vinning á meðan að Hannes, Guðmundur og Aleksandr hafa allir 3 vinninga.

Í sjöundu umferð sem fram fer á föstudaginn hefur Vignir hvítt á Íslandsvininn Nils Grandelious sem vann einmitt Reykjavik Open árið 2023. Allir aðrir tefla við „minni spámenn“ sýnd veiði en ekki gefin og allt það…það eru eiginlega engar auðveldar skákir á svona hörðu móti!

Skákir hefjast 14:00 að íslenskum tíma (14:15 með delay). Teflt er á hverjum degi frá og með föstudeginum (eftir frídaginn).

Flestir af sterkustu virku skákmönnum þjóðarinnar taka þátt að þessu sinni. Íslensku keppendurnir eru:

Vignir Vatnar Stefánsson (2530) nr. 86
Hannes Hlífar Stefánsson (2485) nr. 116
Guðmundur Kjartansson (2470) nr. 122
Helgi Áss Grétarsson (2441) nr. 139
Aleksandr Domalchuk-Jonsson (2399) nr. 183

- Auglýsing -