Vignir Vatnar Stefánsson vel einbeittur. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Íslendingar voru taplausir í fimmtu umferð á sterku EM einstaklinga sem fram fer í Petrovac í Svartfjallalandi. Vignir gerði jafntefli gegn sterkum spænskum landsliðsmanni og stendur vel að vígi. Fyrir umferðina hafði Vignir 3 vinninga og var efstur Íslendinga. Aleksandr Domalchuk-Jonasson hafði 2,5 vinning, Helgi Áss 2 vinninga en Hannes og Guðmundur 1,5 vinning.

Vignir hafði hvítt gegn spænska landsliðsmanninum Jaime Latasa Santos (2630). Skákin var í styttri kantinum, Spánverjinn bauð jafntefli í 12. leik eftir að keppendur höfðu valið rólegt afbrigði. Greinilegt er að Vignir fær strax meiri virðingu og auðveldari jafntefli við það að elóstig hans eru nær 2550 en 2500. Mikið var af jafnteflum á efstu borðum og Vignir ætti áfram að fá sterkan andstæðing með +2

Aleksandr gerði líka auðvelt jafntefli. Hann hafði sitt á hreinu í langri teóríu í franskri vörn. Svartur drepur eitrað peð á b2 en verður að hafa sitt á hreinu. Aleksandr virtist gera það, hafði meiri tíma á klukkunni en í upphafi skákar og Grigoriants ákvað að þvinga jafntefli með þráleik. Fín úrslit með svörtu hjá Sasha.

Helgi Áss náði í góðan seiglusigur með svörtu. Miðtaflið var tvísýnt og Helgi fórnaði skiptamun til að hræra upp í því. Fórnin skilaði sér í endataflinu þegar riddari Helga tók til við að stráfella peð andstæðingsins sem lagði vonsvikinn niður vopn.

Hannes komst næst því að tapa í umferðinni en hann slapp svo sannarlega með skrekkinn. Hannes komst í bobba eftir 16.gxf3?? þar sem 16.De3 hefði verið betri.

16…Ra5! hótar ansi leiðinlegri skák á b3 reitnum. Hannes líklegast með tapað tafl en náði að berjast áfram eftir að pólska stúlkan fann ekki besta framhaldið í næsta leik. Hannes komst í endatafl með mislitum biskupum þar sem umframpeð svarts taldi ekki.

Guðmundur náði sér í fínan sigur með hvítu mönnunum. Guðmundur lék 1.e4 og tefldi beittar en oft áður gegn andstæðingi af þessu kalíberi. Það skilaði sér í nokkuð auðveldum tæknilegum sigri þar sem Guðmundur var aldrei í vandræðum.

Taplaus umferð og tvær sigurskákir sem verður að teljast nokkuð gott.

Eftir fimm umferðir er Vignir með 3,5 vinninga og að standa sig best Íslendinganna í 31-84. sæti. Aleksandr Domalchuk-Jonasson hefur nú 3 vinninga ásamt Helga Áss. Guðmundur hefur 2,5 vinning en Hannes 2 vinninga.

Vignir hefur svart gegn Alan Pichot í 6. umferð. Pichot teflir undir fána Spánverja en var lengst af undir fána Argentínu. Aleksandr mætir Giga Quparadze sem yfirleitt teflir kappskák eins og hraðskák!

Skákir hefjast 14:00 að íslenskum tíma (14:15 með delay). Teflt er á hverjum degi og frídagur eftir sjöttu umferð.

Flestir af sterkustu virku skákmönnum þjóðarinnar taka þátt að þessu sinni. Íslensku keppendurnir eru:

Vignir Vatnar Stefánsson (2530) nr. 86
Hannes Hlífar Stefánsson (2485) nr. 116
Guðmundur Kjartansson (2470) nr. 122
Helgi Áss Grétarsson (2441) nr. 139
Aleksandr Domalchuk-Jonsson (2399) nr. 183

- Auglýsing -