Á mánudag fór fram úrslitaeinvígi um titlana skákmeistari Garðabæjar og skákmeistari Taflfélags Garðabæjar. Um fyrri titilinn kepptu Dagur Ragnarsson, Lenka Ptacnikova og Harald Björnsson og tvö þau síðarnefndu tefldu um seinni titilinn. Þau enduðu öll jöfn með 4,5 vinninga á skákþingi Garðabæjar.

Fyrirkomulagið var þannig að öll kepptu 2 atskákir innbyrðis og er skemmst frá því að segja að Dagur Ragnarsson vann allar fjórar skákir sínar og þar með titilinn skákmeistari Garðabæjar.

Lenka og Harald unnu hins vegar sitt hvora skákina og þurfti því að grípa til hraðskáka til að útkljá baráttuna um skákmeistara Taflfélags Garðabæjar. Þar var aftur jafnt eftir tvær hraðskákir en í hreinni úrslitaskák hafði Lenka betur og varði því titil sinn sem skákmeistari Taflfélags Garðabæjar.

Á sama tíma fór fram skákkvöld í Miðgarði og hlaut Páll Sigurðsson þar flesta vinninga og því GM titil (GarðabæjarMeistari) fram að næsta skákkvöldi. Páll mun halda titlinum í tvær vikur þar sem næsta skákkvöld fellur niður vegna Atskákmóts Reykjavíkur.

 

- Auglýsing -