Vignir Vatnar Stefánsson - Mynd: Dagur Ragnarsson.

Vignir Vatnar Stefánsson bætti enn einni rósinni í ört stækkandi hnappagat sitt nú í dag. Vignir hefur verið á frábæru skriði á þessu ári og gert vel í fjölmörgum skákmótum erlendis. Í dag lauk Masters Flokki á London Chess Classic og endaði Vignir í 3. sæti á stigum. Vignir gerði jafntefli í lokaumferðinni gegn stórmeistaranum Oleg Korneev en stóð lengst af til vinnings.

Íslendingarnir þrír sem tóku þátt í Masters voru: Vignir Vatnar númer 6 í stigaröðinni, Björn Þorfinnsson númer 26 og Björn Hólm Birkisson númer 54.

Fyrir umferðina var Vignir í 3-6. sæti með 6 vinninga af 8 mögulegum.

Vignir Vatnar Stefánsson vel einbeittur. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Vignir hafði hvítt gegn Oleg Korneev í lokaumferðinni og tefldi traust. Vignir fékk snemma biskupaparið og vann svo peð. Korneev var kominn með tapað tafl en þá tók einhver sig til og jinxaði Vigni með því að fagna of snemma á Íslenskir Skákmenn á Facebook. Vignir klikkaði aðeins í úrvinnslunni og Korneev varðist vel og niðurstaðan jafntefli.

Vignir endaði eftir sem áður í 3. sæti á stigum en hefði fengið aðeins meira verðlaunafé með sigri í lokaumferðinni þar sem hann hefði deilt efsta sæti þrátt fyrir að hann hefði líka endað í 3. sæti á stigum í þeirri sviðsmynd.

Engu að síður sérdeilis prýðilegur árangur og hækkar Vignir um 8 elóstig eftir þennan árangur.

Í vígahug Björn Þorfinnsson við taflið á Reykjavíkurskákmótinu í fyrra. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Björn Þorfinnsson hefur teflt vel seinni part móts og í lokaumferðinni gerði hann jafntefli við stórmeistarann Justin Tan. Björn hafði áður tapað gegn honum á Íslandsmóti Skákfélaga þar sem Björn tefldi eins og algjör flóðhestur. Í dag sýndi hann betur úr hverju hann er gerður. Björn vann peð í miðtaflinu en Tan hafði fínar bætur og í raun varð það Tan sem var að pressa í drottningarendatafli í lokin. Sá ástralski fékk tvo sénsa á að leika …h4 sem hefði verið vinningsleikur en missti af því í bæði skiptin og Björn náði þráskák og jafntefli.

Björn tefldi eins og óður maður eftir að hann tapaði netskákeinvígi sínu við Helga Ólafsson. „Húnninn“ fékk 4,5 vinning úr síðustu 5 skákunum og tók enga fanga! Vonandi fáum við þennan Björn sem fyrst aftur við skákborðið!

Björn endaði í 15. sæti og hækkar um 7 elóstig.

Björn Hólm – Svona mæta menn á sviðið!

Björn Hólm Birkisson virtist vel undirbúinn í sinni skák miðað við tímanotkun og fékk mjög vænlegt miðtafl. Stigahærri andstæðingur hans sá sig tilneyddan til að fórna manni fyrir spil og náði að hanga á jafntefli í endataflinu manni undir en með peð fyrir manninn.

Björn endaði með 4 vinninga í 48. sæti en tapaði um 20 elóstigum. Herslumuninn vantaði upp á að klára nokkrar vænlegar stöður sem hefðu skilað sanngjörnum stigagróða.

Sadwhani hafði sigur á mótinu á stigum en hann og Smirin voru efstir og jafnir. Vignir var með bestu oddastigin af þeim með 6,5 vinning en Björn verstu oddastigin af þeim með 6 vinninga.

- Auglýsing -