Íslandsmótinu í Atskák lauk nú í dag en það fór fram eins og undanfarin ár í Bankanum vinnustofu og var mótið í boði Mar Seafood restaurant. Dagur Ragnarsson virðist kunna vel við sig á Selfossi og náði sér í sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í fullorðinsflokki einstaklinga. Áður hafði Dagur komist í einvígi um titilinn fyrir tveimur árum.
Um 30 skákmenn mættu til leiks á köldum en hressandi blíðviðrisdegi í hressandi Suðurlandslofti. Titilhafarnir voru 11 talsins en einhverjir stórmeistarar þurftu frá að hverfa á síðustu stundu en þó voru þrír stórmeistarar mættir til leiks.
Flestra augu beindust að stórmeistaranum Helga Áss Grétarssyni sem nýverið varð Íslandsmeistari í hraðskák. Helgi var að eltast við „þrennuna“ þ.e. að verða Íslandsmeistari í kappskák, hraðskák og atskák.
Helgi missti snemma niður jafntefli en tæknistjóri mótsins, Benedikt Briem, sýndi skákhæfni sína og gaf ekki færi á sér.
Dagur byrjaði mótið vel og var með fullt hús eftir 3 umferðir ásamt fyrrverandi skólabróður sínum Oliver Aron Jóhannessyni og stórmeistaranum Braga Þorfinnssyni sem byrjaði mótið sterkt og virtist vera að byggja upp góðan meðbyr.
Eftir sex umferðir var toppbaráttan jöfn og spennandi, Dagur var með 5 vinninga en Helgi Áss hafði nú náð honum þegar keppendur tóku stutta pásu og gædd sér á sérdeilis prýðilegum pizzum í boði Kaffi Krús. Innbyrðis viðureign Dags og Helga hafði endað með jafnteflí í 5. umferð
Dagur með hvítt lék 19.Dxh6!? sem er skemmtilegur leikur en þó ekki besti leikurinn. 19…Bxh6 20.Rf6+ leiddi svo til þráskákar þar sem aðrir leikir en 20…Kf8 tapa.
Pizzurnar fóru þokkalega í Dag sem var orðinn einn efstur að loknum 7 umferðum, hálfum vinningi á undan þéttum pakka.
Í næstsíðustu umferð kom Alexander Oliver Mai „úr djúpinu“ og tryggði sér úrslitaskák við Dag Ragnarsson í lokaumferðinni.
Dagur var sleipari á svellinu í úrslitaskákinni, beitti nýmóðins afbrigði með 6.a3 í þekktri stöðu sem er annaðhvort gríðarlega menntað en mögulega smá snobbað. Dagur hafði plönin betur á hreinu og landaði aftur lykiltaktík á h6 reitnum. Alexander bauð jafntefli sem tryggði Degi Íslandsmeistaratitilinn og Dagur þáði boðið.
Glæsilegur sigur hjá Degi sem hann var vel sáttur með. CAD, Mar Seafood Restaurant og Tómas Þoroddsson fá þakkir fyrir að gera þessu móti hátt undir höfði.
Dagur Íslandsmeistari
Útsending dagsins frá mótinu: