Stuðið virðist hreinlega ekki ætla að renna af Vigni Vatnari Stefánssyni þessa dagana. Að loknu vel heppnuðu 3. sæti á London Classic Masters-flokki tók við grjóthart hraðskákmót þar sem keppendur úr London Classic Elite flokki og nokkrir heimsklassaskákmenn bættust í hópinn.
Hraðskákmótið heitir einfaldlega Super Blitz og var fyrirkomulagið þannig að skipt var í fjóra riðla, A, B, C og D. Vignir var í grjóthörðum C-riðli ásamt Mamedyarov, Gawain Jones sigurvegarar á Elite mótinu, undabarninu fyrrverandi Luke McShane og fleirum.
Tveir efstu fóru áfram í 8-manna úrslit og gerði Vignir sér lítið fyrir og náði því, fór taplaus í gegnum riðilinn og lagði sjálfan Shakhriyar Mamedyarov að velli!
Vignir tefldi …Bd6 afbrigðið sem hann nánast predikar á VignirVatnar.is ( nei sko fáðu þér áskrift!!) og Mamedyarov varð ekkert ágengt með hvítu.
23.Red4? var leikið í verri stöðu á hvítt en fór þá úr öskunni í eldinn þar sem 23…g6! vinnur mann. Mamedyarov er góður í spriklinu en fékk ekki nóg fyrir manninn og Vignir stýrði vinningnum heim.
Aðrar skákir Vignis í C-riðli: (smella á punktana til að velja skák)
Þessi stórkostlegu úrslit þýddu að Vignir var kominn í úrslit þar sem hann mætti ekki ómerkari skákmönnum en Alireza Firouzja, MVL, Mickey Adams og Vidit svo einhverjir séu nefndir!
Mögulega var eitthvað stress komið hér við sögu en Vignir náði jafntefli gegn indverska landsliðsmanninum Vidit sem tefldi á síðasta kandídatamóti. Vignir lagði einnig Ilya Smirin að velli en tapaði hinum skákunum fyrir súper-stórmeisturum.
Skákir Vignis í úrslitum: (smella á punktana til að velja skák)
Frábær árangur og ótrúlega skemmtileg reynsla fyrir Vigni!