Þessa dagana fer fram Evrópumótið í At- og Hraðskák. Ísland á einn fulltrúa á mótinu en það er Aleksandr Domalchuk-Jonasson sem er einn virkasti skákmaður Íslendinga.
Á laugardeginum fór fram fyrri keppnisdagur á Evrópumótinu í atskák þar sem tefldar voru sex af ellefu umferðum sem fram fara.
Okkar maður átti fínan dag og landaði 4,5 vinning á þessum fyrsta degi. Jafntefli gegn Vladimir Fedoseev (2731) í 2. umferð var hápunkturinn enda Fedoseev stigahæsti keppandinn.
Sasha hafði hvítt og náði góðri tafleinföldun í miðtaflinu í Catalan-byrjun. Jafnt var á peðum og allt á sama væng, traust jafntefli.
Sasha kláraði daginn svo með sigri á Stefanovu, fyrrverandi heimsmeistara kvenna. Sasha með hvítt fékk gott drottningalaust miðtafl með virkari menn og yfirspilaði Stefanovu stöðulega.
Aleksandr mætir Leon Livaic í fyrstu skák seinni dagsins á morgun.