Dagur að tafli. Mynd: Facebook-síða mótsins.

Íslensku alþjóðlegu meistararnir Dagur Ragnarsson og Aleksandr Domalchuk-Jonasson stóðu sig sérdeilis prýðilega á alþjóðlegu móti í New York, Blitz Fuel GM/IM Invitational sem lauk í gær. Dagur átti góðan dag og endaði mótið í efsta sæti og Aleksandr endaði í öðru sæti.

Í hinum IM-flokknum fylgdust margir með Levy Rozman (Gothamchess) sem átti skelfilegt mót.

Dagurinn byrjaði lokadaginn á að ná jafntefli eftir hálfgerða nauðvörn með svörtu gegn kandídatameistaranu Carter Ho (2168) sem tefldi gríðarlega skemmtilega í byrjuninni með taktískum leikjum (11.Rg5! t.d.) og náði að setja Dag undir töluverða pressu og hafði á tímabili unnið tafl

31…Be6 var vísir að því að byrja að klóra sig út úr vandræðunum og Dagur fann góða varnarleiki og loks sá Carter sér þess þann kost vænstan að þvinga þráleik.

Aleksandr tapaði sinni skák og eins og oft á þessu móti var um að ræða mjög flókið miðtafl og að þessu sinni missti Aleksandr þráðinn í flækjum og kostaði þar tímahrak hann klárlega einhverja möguleika.

Aleksandr kláraði mótið hinsvegar með stæl, setti andstæðing sinn í smá endataflsþjöppu og sigurinn tryggði Aleksandr 2. sætið á mótinu.

Dagur lenti aftur í nauðvörn í seinni skákinni en í þetta skiptið náði hann ekki að halda jafntefli…heldur sneri taflinu við í lokin og vann skákina! Sigurinn tryggði honum efsta sætið á mótinu.

Dagur endaði með 6,5 vinning og var sigurvegari í þessum IM-flokki. Dagur hækkar um 6 elóstig fyrir árangurinn.

Aleksandr endaði í öðru sæti með 6 vinninga en tapar þó 3 elóstigum á mótinu.

Eins og áður sagði gekk eiginlega skelfilega hjá Levy Rozman og mögulega er það of mikið álag að vera að gera samantektarmyndbönd á móti þar sem tefldar eru tvær skákir á dag. Myndbandið hér að neðan er eftir 7. umferð þar sem Levy hafði 1,5 vinning af 7.

Lokadaginn náði Levy tveimur jafnteflum en tapaði ansi mörgum elóstigum í heildina og stórmeistaradraumur hans verður að teljast ansi langsóttur. Athyglisverðar pælingar hjá honum í lok myndbandsins um þetta allt saman.

- Auglýsing -