Kristján Örn Elíasson hefur um margra mánaða skeið stjórnað, ákaflega vel heppnuðum, vikulegum útvarpsþáttum, á miðvikudögum, á Útvarpi Sögu – sem heita; Við skákborðið.
Í gær mætti goðsögnin Friðrik Ólafsson, sem fagnar 90 ára afmæli á sunnudaginn, í Skipholtið.
Friðrik Ólafsson er gestur Kristjáns Arnar í þessum þætti. Friðrik varð fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák árið 1958. Hann er þekktasti og sterkasti skákmeistari sem Íslendingar hafa eignast og var á meðal sterkustu skákmanna heims á sínum tíma. Friðrik var forseti Alþjóða skáksambandsins (FIDE) frá 1978 til 1982. Hann á glæsilegan starfsferil að baki og hefur hlotið fjölda viðurkenninga. Á sunnudaginn kemur eða þann 26. janúar fagnar Friðrik 90 ára stórafmæli sínu. Af því tilefni verður opið hús í Hörpu. Samkoman hefst kl. 16:00 og þætti meistaranum vænt um að sjá sem flesta. Hlusta má á viðtalið í spilaranum.
Friðrik Ólafsson: Af vef Skáksögufélagsins.
Menntun: Stúdentspróf frá MR 1955. Lögfræðipróf frá HÍ 1968.
Starfsferill: Fulltrúi í dómsmálaráðuneytinu 1968-1974. Forseti Alþjóðaskáksambandsins (FIDE) 1978-1982. Ritstjóri Lagasafns Íslands 1982-1983. Skrifstofustjóri Alþingis frá 1984. Varð sex sinnum Íslandsmeistari í skák, fyrst 1952, og Norðurlandameistari í skák 1953 og 1971. Alþjóðlegur skákmeistari 1956 og fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák 1958. Varð sigurvegari á skákmótinu í Hastings 1955-1956, í Beverwijk í Hollandi 1959, Í Marianske Kasne í Tékkóslóvakíu 1961, á alþjóðlegum skákmótum í Reykjavík 1966, 1972 og 1976 og á Wijk an Zee í Hollandi 1975. Veitti forstöðu Skákskóla Friðriks Ólafssonar 1982-1984. Sat í nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins 1989 sem vann að undirbúningi frumvarps til laga um Skákskóla Íslands og stórmeistaralaun.
Ritstörf: Lærið að tefla, kennslubók í skák, ásamt Ingvari Ásmundssyni, 1958. Heimsmeistaraeinvígið í skák 1972, ásamt Freysteini Jóhannssyni, 1972. Við skákborðið í aldarfjórðung, 1976. Auk þess fjöldi greina um skák í tímaritum og dagblöðum.
Viðurkenningar: Sæmdur titlinum alþjóðlegur stórmeistari í skák 1958, fyrstur Íslendinga. Riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu 1972 og stórriddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu 1980. Gerður að heiðursborgara Reykjavíkur og aðalheiðursfélaga FIDE, 2015.
Eldri þætti má nálgast hér á Spotity.