Markús Orri að tafli.

Fjórða umferð Skákþingsins var tefld í fyrradag 22. janúar. Til leiks mætti tíu skákmenn, en þrír sátu hjá.

Úrslit:
Sigurður-Markús     0-1
Stefán-Karl         1/2
Benedikt-Tobias     0-1
Smári-Baldur        1-0
Björgvin-Sigþór     0-1

Tveimur skákum lauk snemma, þar sem bæði Björgvini og Baldri varð fótaskortur í byrjuninni og sáu ekki til sólar eftir það. Stefán og Karl tefldu þunga stöðuskák þar sem undiraldan var þung en yfirborðið kyrrlátt. Má segja að jafnvægið hafi aldrei raskast og nánast allir menn áfram á borðinu þegar samið var.
Tobias tefldi nú sína fyrstu skák á mótinu; beitti Pirc-vörn gegn Benedikt og fékk heldur þrengri stöðu. Hann náði þó mótspili sem andstæðingur hans hugðist kæfa með því að gefa báða hróka sína en fá drottningu í staðinn. Þetta reyndist misráðið og frekari ónákvæmni gaf Tobiasi færi á listilegum dansi riddara og hróks í kring um kóng Benedikts sem gat ekki haldið krúnunni eftir þau vopnaviðskipti.
Lengsta skákin var háð á efsta borði, þar sem Markús gerði harða hríð að forystusauðnum Sigurði. Í miðtaflinu fékk hann örlítið frumkvæði með svörtu gegn afar varkárri taflmennsku Sigurðar. Þrátt fyrir mannakaup hélt hann frumkvæðinu sem endaði með því að hann vann peð og þegar annað peð virtist dauðans matur gafst Sigurður upp.

Akureyrarmeistarinn frá í fyrra hefur því náð efsta sætinu eftir fjórar umferðir ásamt Smára, en þeir eigast einmitt við í næstu umferð. Þeir félagar hafa þrjá vinninga, en hálfum vinningi á eftir þeim koma þeir Sigurður, Stefán, Karl og Tobias. Það er því þéttskipað í baráttu efstu manna þegar mótið er rúmlega hálfnað.

Í fimmtu umferð, sem tefld verður laugardaginn 25.janúar kl. 13 eigast þessir við:
Markús og Smári
Tobias og Stefán
Karl og Sigurður
Sigþór og Eymundur
Benedikt og Valur Darri

chess-results

- Auglýsing -