Blikarnir Vignir Vatnar Stefánsson og Birkir Ísak Jóhannsson voru með fullt hús eftir fjórar umferðir og mættust í toppslagnum í fimmtu umferð á miðvikudagskvöldið. Vignir hafði betur í baráttuskák og er einn efstur með fullt hús, 5 vinninga af 5. Annar Bliki er næstur í röðinni, Benedikt Briem vann góðan sigur og hefur 4,5 vinning í öðru sæti.

Viðureign Birkis Ísaks og Vignis var að mörgu leiti athyglisverð. Birkir hefur aðstoðað Vigni í byrjanaundirbúningi á síðustu árum og er bæði mjög vel að sér í byrjunum og þekkir byrjanir Vignis nánast betur en Vignir sjálfur! Vignir þurfti því að kafa djúpt í vopnabúrið…í raun uppfæra það til að líða vel með að koma Birki á óvart í byrjuninni.

Lending Vignis var „Jólatréð“ í Leningrad-afbrigðinu. Peðin frá d7-e6-f5-g6-h7 mynda hálfgert jólatré. Vignir lék reyndar fyrst …d6 áður en hann lék svo …e6. Þetta afbrigði sótti hann í hugmyndabanka stórmeistarans Mihail Marin.

Birki tefldi taflið vel og var í raun aldrei með verra fyrr en hann leikur af sér í lokin.

Hér er 28.fxe4 best og tölvumatið er nánast á núllinu. Birkir í tímahraki lék hinsvegar 28.Hxd7?? en þá er millileikurinn 28…Df3! tjaldið.

Benedikt Briem með svart í upphafi tafls gegn Birni Hólm

Á öðru borði náði Benedikt Briem að troða sér fremst í röðina yfir næstu „áskorendur“ Vignis. Benedikt hefur nú unnið allar tefldar skákir sínar og hefur 4,5 vinning, þurfti að taka eina yfirsetu.

Skák hans við Björn Hólm var baráttuskák en líkt og misráðinn hróksleikur hjá Birki þá var það sama eiginlega uppi á teningnum hjá Birni.

19.Hxc8? gaf svörtum of mikið frumkvæði með því að gefa eftir c-línuna og í kjölfarið veiktist kóngsstaða hvíts og hvítu reitirnir og það var of mikið. 19.Bxd4 hefði haldið stöðunni í jafnvægi. Munurinn liggur aðallega í því að með drottningu á c8 á svartur drottningarskák á a6 sem gerir Ke2 að lélegum leik (eftir skákina Bb4+) en eftir 19.Bxd4 Bb4 er 20.Ke2 í fínu lagi á hvítt.

Bárður gegn Oliver

Þetta reyndist erfið umferð fyrir Birkissynina. Bárður Örn tapaði baráttuskák gegn Oliver Aron Jóhannessyni. Oliver náði að vinna peð af Bárði í miðtaflinu og var aldrei með verra eftir það. Úrvinnslan gekk vel, eitt hikst, en annars virtist sigur Olivers nokkuð sannfærandi eftir peðsvinninginn. Fjölnismaðurinn er að tefla vel og heitur síðustu mánuðina!

Ingvar Þór og Magnús Pálmi

Á fjórða borði var loks skák þar sem menn sem eru að narta í vizkualdurinn glímdu. Ingvar Þór hafði hvítt gegn Magnúsi Pálma. Greinarhöfundur sem hér skrifar um sjálfan sig í þriðju persónu kom Magnúsi vafalítið á óvart með því að hrinda kóngspeðinu fram um tvo í fyrsta leik. Ingvar hefur að mestu verið í d4/c4/Rf3 byrjunum lengst af sínum ferli en aðeins verið að víkka vopnabúrið og bæta við sig 1.e4.

Ingvar mælir nefnilega með VignirVatnar.is og hans myndböndum! Skemmst er frá því að segja að staðan upp að 13.Ba2!? er að öllu leiti að finna í 1.e4 byrjanakerfi Vignis og margar athyglisverðar hugmyndir í þessu eitraða afbrigði sem Ingvar greinilega lærði vel af Vigni!

Lúmskt erfitt er að tefla svörtu stöðuna og 17…Df5? var taktísk yfirsjón hjá svörtum og ekki aftur snúið eftir það.

Ingvar komst því í 4 vinninga eins og Oliver Aron og Birkir Ísak.

Benedikt (svart) missti af hörkufæri gegn Símoni

Síðastur til að komast í 4 vinninga var Símon Þórhallsson sem lagði Benedikt Þórisson að velli. Vendipunkturinn var líklegast snemma í miðtaflinu.

Hér hefði 16…Rb4! verið sterkur þar sem 17.Dxc7 er svarað með millleik 17…Bxb5+ og svartur stendur vel. 16…Re5 gaf hvítum hinsvegar mjög þægilegt endatafl peði yfir sem hann náði að sigla heim. Siglingin hefði þó getað orðið mun styttri…

Hvítur á leik og vinnur, Símon hefði vafalítið séð rétta leikinn hér ef einhver hefði laumað að honum að hér væri „þraut“ á ferðinni. Læt lesendum það eftir!

Kristján er hrifinn af því að setja riddarana „í vasann“ á h2 eða h7

Kristján Örn var ansi nálægt því að ná sér í gott höfuðleður í langri skák gegn Mikael Jóhanni. Kristján tefldi vel, náði t.d. að ginna Mikael í að hrekja riddara sinn „í vasann“ á h7 en þaðan vaknaði riddarinn svo vel til lífs með drápi á g5 og góðri skiptamunsfórn sem færði Kristjáni gott vald á svörtu reitunum.

Einhvern slagkraft vantaði í miðtaflinu og endataflinu þar sem Kristján var með gjörunnið tafl á köflum en Mikael Jóhann sýndi gríðarlega seiglu í vörninni og náði að bjarga sér með vel tímasettri skiptamunsfórn seint í skákinni. Kristján reyndi árangurslaust að vinna skiptamun yfir í hátt í 50 leiki en átti EINN séns á að vinna taflið í 85. leik með Ha4+ fyrir utan það var matið jafntefli allan tímann frá 50. leik í 101. leik. Gaman að þessu!

Brynjar með svart gegn Arnari Milutin

Brynjar Bjarkarson náði sér hinsvegar í gott höfuðleður eftir slakan leik Arnars Milutin 19.Dd2??

Brynjar sá 19…Rxe4! og hvíta staðan hrynur í öllum afbriðgum eins og auðvelt er að sannreyna og Brynjar sýndi!

Eldri kynslóðin á það til að skóla þá yngri. Júlíus Friðjónsson er feykisterkur skákmaður af „hypermodern-skólanum“. Hann tefldi 1.b3 og skáksetti báða biskupa sína og náði svo að still upp í klassíska fórn sem Sigurður Páll gaf kost á með 17…Rfd7?

17.Bxh7+! er erfiður viðureignar hér. Sigurður valdi 17…Kf8 þar sem 17…Kxh7 tapar manninum strax til baka (Dh5xf7xe7) og sóknin heldur áfram. 18.Rxf7 var þó annað rothögg í þeirri stöðu og hvítur stendur til vinnings. Úrvinnslan gekk þó brösulega og þurfti hvítur í raun að vinna skákina „aftur“ í lokin en það hafðist.

Jóhann (hvítt) fann djöflatrikk í lokin til að bjarga skákinni gegn Kristjáni

Jóhann Ragnarsson slapp svo sannarlega með skrekkinn gegn Kristjáni Geirssyni.

Svartur stendur einfaldlega til vinnings hér, enga vörn er að hafa á 1. reitaröð. Jóhann reyndi 39.d6+ og Kristján (mögulega í tímahraki) kveikti ekki á viðvörunarbjöllunum og tók peðið 39…Kxd6?? þegar allir aðrir kóngsleikir (nema 39…Ke8?) vinna á svart.

Við það að losna við d-peðið er hvítur allt í einu í pattstöðu með alla menn sína nema hrókinn. 40.Hf6+! fylgdi því í kjölfarið og kalt vatn hefur vafalítið hlaupið milli skinns og hörunds hjá Kristjáni þegar hann áttaði sig á kraftaverkabjörguninni sem Jóhann var að ná.

Hrókurinn fer einfaldlega í „kamikaze-hlutverk“ og þegar það hefur tekist er hvítur patt og skákin jafntefli!

Pétur (svart) að tafli gegn Guðmundi

Hinn efnilega Pétur Úlfar átti möguleika á stórkostlegum tölvuleik í sinni tapskák. Ekki er líklegt að margir hefðu séð þennan leik.

18…Bh3!! hefði gefið svörtum unnið tafl. Hugmyndin er að 19.gxh3 er svarað með 19…Hd6 og hvítur missir valdið á g5 biskupnum með skelfilegum afleiðingum.

Úrslit:

Skemmtileg umferð og miklar sviptingar eins og sjá má hér að ofan!

Staðan:

Vignir efstur með fullt hús, Benedikt með 4,5 vinning og svo fjórir með 4 vinninga:

Pörun 6. umferðar:

Vignir mætir að sjálfsögðu Benedikt en þeir þekkja hvorn annan og byrjanir mjög vel eins og Vignir og Birkir Ísak. Oliver og Símon mætast í hörkuskák. Birkir Ísak fær svart gegn Þorvarði og mögulegur endasprettur Hilmis þarf að byrja með hvítu gegn Júlíusi. Ingvar Þór tók hjásetu.

 

- Auglýsing -