Fjórða umferð Öðlingamótsins lauk nú í gærkvöldi en þá fór fram toppuppgjör Sigurbjörns Björnssonar og Lenku Ptacnikovu sem bæði höfðu fullt hús fyrir umferðina. Sigurbjörn tefldi hörkuskák og náði að leggja Lenku að velli með mjög kröftugri taflmennsku.
Sigurbjörn hafði hvítt og upp kom sikileyjarvörn. Lenka gaf ákveðin færi á sér snemma tafls með því að setja riddarann á a5 og still peðunum upp á g6 og h5. Sigurbjörn fann vafalítið lyktina af dauðafærinu hér!
13.Rxe6! mylur niður svörtu kóngsstöðuna. Sigurbjörn hefur löngum verið sterkur í slíkum sóknarstöðum og þegar rykið var horfið af borðinu hafði hvítur fjórum peðum meira og fína stjórn á stöðunni þannig að Lenka gafst upp.
Kjartan Maack hélt sig í grennd við toppinn með fínni sóknarskák með svörtu gegn nafna sínum Rútssyni.
Sigurbjörn hefur því 4 vinninga en þau Lenka, Kjartan Maack og Ingvar Þór hafa 3 vinninga en Ingvar tók yfirsetu vegna Afmælismóts Goðans.
Nokkuð öruggt er að Ingvar mætir Sigurbirni og Lenka mætir Kjartan í 5. umferð.
















