Stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson og alþjóðlegi meistarinn Aleksandr Domalchuk-Jonasson fóru vel af stað á Evrópumóti einstaklinga í skák sem fram fer í Rúmeníu.
Verkefni dagsins leit svona út:
Báðir höfðu svart og erfiðari pörun fyrir Vigni. Í raun var skák Aleksandrs kjánalega auðveld. Mögulega slæmur dagur hjá Remusi en hann á ekki heima á Evrópumóti með svona taflmennsku! Bxc6 var skelfilegur leikur hjá hvítum og Aleksandr fékk varla æfingu í þessari skák.
Vignir fékk hinsvegar alvöru skák gegn reyndri skákkonu, WIM Silvia-Raluca Sgircea. Silvia hefur t.a.m. tekið þátt í þjálfun Killerchesstraining svo eitthvað sé nefnt. Sú rúmenska tefldi traust og rólega framan af og Vignir sýndi þolinmæði.
Vignir hafði meira rými með svart en hvítur gaf fá færi á sér. Taflið opnaðist og Vignir fékk smá frumkvæði en hættan alltaf til staðar að staðan myndi einfaldast of mikið. Vignir hélt mjög vel á spöðunum og þjarmaði jafnt og þétt að hvítu stöðunni á kóngsvæng þrátt fyrir að skiptst hefði upp á drottningum.
Fór svo að Vignir hafði sigurinn með góðri taflmennsku.
Lítið var um óvænt úrslit en þó jafntefli hér og þar. Bogdan-Daniel Deac byrjaði illa á heimavelli með jafntefli gegn danska alþjóðlega meistaranum Nicolas Kistrup. Fara þurfti alla leið niður á 27. borð til að stigahærri skákmanni væri skellt en þar laut KR-ingurinn Donchenko í dúk gegn stigalægri ísraelskum skákmanni.
Keppendur á mótinu í ár eru alls 375 og er Vignir númer 69 í stigaröðinni en Aleksandr númer 179. Heimamaðurinn Bogdan-Daniel Deac (2692), sigurvegari á síðasta Reykjavíkurskákmóti, er stigahæstur og eins er Alexey Sarana (2689) alltaf líklegur en fyrir aðeins 2 árum vann hann þrjú mismunandi evrópumót á sama ári þ.e. með mismunandi tímamörkum og bæði einstaklings- og liðakeppni! Tefldar eru 11 umferðir með einum frídegi. Mikið er í húfi en 20 efstu skákmenn mótsins komast á Heimsbikarmótið sem fram fer síðar á þessu ári.