Alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson stendur best að vígi og er einn efstur fyrir lokaumferðina 20 ára Afmælismóti skákfélagsins Goðans. Tvöföld umferð var í dag og kom Björn Þorfinnsson sér í lykilstöðu með því að leggja Bárð Örn Birkisson að velli en þeir voru jafnir í efsta sæti fyrir 5. umferðina ásamt Þresti Þórhallssyni sem varð að lúta í dúk gegn Simon Williams.

Ritstjórnin var búin að lofa skemmtilegri umferð og var eiginlega viss um að Björn myndi fara með himinskautum eða fuðra upp í logum. Fyrri útgáfan af Birni mætti til leiks og kreysti Björn svörtu stöðuna eins og kyrkislanga með markvissri taflmennsku. Það var ekki fyrr en í úrvinnslunni sem Björn fór aðeins að fatast flugið en hann náði vopnum sínum aftur og kláraði dæmið.

Björn hefur næmt auga fyrir snotrum litlum takískum aðgerðum og hér fann hann 48.Hxe8! sem er nettur leikur. Hrókinn má ekki taka útaf gafli eða biskupsskák sem setur staksetur svörtu hjónakornin.

Simon hefur eins og Björn næmt auga fyrir takískum aðgerðum. Hann tefldi hvasst gegn Þresti og fórnaði peðum og hér fann hann skemmtilegan leik til að halda pressunni gangandi:

16.Bf6! er besti leikurinn í stöðunni og þessi biskup vann svo d4-peðið og g7-peðið í næstu leikjum og kom Simon peði yfir. Betri kóngsstaða hans tryggði svo að vörnin var erfið fyrir Þröst og hann varð að lokum að lúta í dúk.

Bragi komst í hóp þriggja skákmanna í öðru sæti með 4 vinninga. Bragi lagði Markús Orra Óskarsson að velli en það var ekki auðvelt. Markús hafði lengst af fína stöðu og Bragi þurfti að leggja nokkuð á stöðuna til að búa til sénsa. Markús var sleginn einhvers konar skákblindu.

Í stað þess að leika 40.Hxa6 og svartur virðist lítið betra eiga en að leika 40…e4 og hróksendatafl virðist þvingað eftir 41.Bxg7 Kxg7 42.Hxd6 e3 43.He6 og svo magnhópkaup á f2. Hvítur ætti ekki að geta tapað þeirri stöðu en eins og áður sagði kom skákblinda, 40.De4?? og svartur vinnur. Bragi átti kannski inni einn svona leik eftir að hafa víxlað leikjum sjálfur í netskákinni á dögunum.

Dagur var lengst af peði yfir gegn Davíð en staðan of þurr og jafntefli niðurstaðan á endanum. Dagur heltist þar með úr lestinni í baráttunni um allra efstu sætin.

Jón Kristinn vann sig inn í toppbaráttuna með því að leggja landsliðskonuna Jóhönnu Björgu að velli. Jón var lengst af í smá stöðulegri beyglu en fann sín færi á kóngsvæng og sneri flæði skákarinnar sér í vil.

Í lengstu skákum umferðarinnar náðu svo Gauti Páll og Hilmir Freyr í góðu baráttusigra í erfiðum skákum.

Úrslit umferðarinnar:

Mikilvægur sigur hjá Birni eins og áður sagði. Simon, Bragi og Jokkó með mikilvæga sigra. Hilmar Freyr Birgisson og Lárus H. Bjarnason eru að eiga gott mót og náðu sér í góða sigra.

Staðan:

Björn einn efstur með 4,5 vinning og svo þrír með 4 vinninga. Baráttan vafalítið hörð í lokaumferðinni.

Pörun sjöttu umferðar:

Bragi hefur hvítt og mætir Birni í lokaumferðinni. Jón Kristinn hefur hvítt gegn Simon í skák sem verður vafalítið athyglisverð, tveir skákmenn sem geta tekið alvöru áhættur!

Hart verður barist um efstu sætin þrjú og vert að vekja athygli á því að aðeins þrír efstu menn eftir oddastigaútreikning fá verðlaun!

Lokaumferðin hefst klukkan 10:00. Áframhaldandi fjör í Mývatnssveit við flippflenni fínar aðstæður.

Styrktaraðilar Afmælismóts Goðans 2025

Þingeyjarsveit
Sel-Hótel Mývatn
Landsvirkjun
Sparisjóður Suður Þingeyinga
Framsýn

Jarðböðin
HSÞ
GPG

- Auglýsing -