Reykjavíkurskákmótið 2025 fer fram í Hörpu dagana 9.-15. apríl. Vinsældir mótsins eru ótrúlegar og enn eitt árið verður þátttökumet. Núna eru um 420 keppendur frá 50 löndum skráðir til leiks og væru enn fleiri hefði ekki verið lokað fyrir skráningu í mótið vegna plássleysis í Hörpu!

Mótið er í boði Kviku eignastýringar og Brims.

Á Reykjavíkurskákmótinu verður teflt til heiðurs minningar Friðriks Ólafssonar, sem lést 4. apríl sl. Upphaflega átti mótið að vera afmælismót Friðriks sem varð níræður 26. janúar.

Mótið hefst í dag þegar Líf Magneudóttir, formaður borgarráðs, setur mótið og leikur fyrsta leikinn. Friðriks verður minnst í upphafi mótsins.

Myndasýning verður í Hörpu þar sem gestir og gangandi geta séð myndir af löngum skákferli Friðriks. Einnig verður boðið upp á fyrirlestur tileinkaðan meistaranum á meðan mótinu stendur.

Áhorfendur eru velkomnir í Hörpu!

Um 90 íslenskir skákmenn taka þátt og þar á meðal flestir sterkustu skákmenn og skákkonur landsins. Meðal innlendra keppenda eru Jóhann Hjartarson, Hannes Hlífar Stefánsson og Vignir Vatnar Stefánsson.

Meðal keppenda eru heimsþekkir skákmenn og skákkonur. Stigahæstur keppenda er íranski skákmaðurinn Parham Maghsoodloo sem teflir í fyrsta sinn á Íslandi. Þekktastur keppenda er úkraínska goðsögnin Vasyl Ivanchuk.  Eins og síðustu ár sitja áhrifavaldar mark sitt á mótið. Þeirra þekkust í ár er Anna Cramling sem hefur um tvær milljónir fylgjenda.  Manna hennar, Pia Cramling, skýrir skákirnar á netinu!

Í gær var þjófstartað þegar Harpa Blitz fór fram. Kínverski stórmeistarinn Shanglei Lu hafði sigur á fjölmennu móti þar sem 177 keppendur tóku þátt. Vignir Vatnar Stefánsson efstur íslensku keppendanna í fimmta sæti.

 

- Auglýsing -