Harpa Blitz hraðskákmótið fór fram að kvöldi 8. apríl í Hörpu, daginn fyrir aðalviðburðinn, Reykjavíkurmótið sjálft. Mótið er orðið fastur liður í kringum Reykjavíkurmótið og nýtur mikilla vinsælda meðal keppenda – jafnt stórmeistara sem áhugamanna.
Tefldar voru 10 umferðir eftir svissnesku fyrirkomulagi með 3 mínútur + 2 sekúndur á leik. Keppnin var hörð og skemmtileg og fjölmargar viðureignir spennandi fram á síðasta afleik eða síðustu sekúndu! Yfir 170 keppendur mættu til leiks!
Kínverski stórmeistarinn Lu Shanglei stóð uppi sem sigurvegari eftir glæsilega frammistöðu, en hann tapaði ekki skák og hlaut 9 vinninga. Í öðru sæti til fjórða sæti urðu stórmeistarinn Denis Kadric frá Svartfjallalandi ásamt alþjóðlegu meisturunum Kilic Eray frá Tyrklandi og Vladislav Larkin frá Úkraínu með 8 vinninga. Efstur íslensku skákmannanna varð stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson með 7½ vinning en jafntefli í lokaumferðinni kostaði hann verðlaunasæti.
Ísland átti fjölda keppenda í mótinu og var góður árangur margra – bæði reyndra skákmanna og efnilegra ungra keppenda. Mikil stemning ríkti í Hörpu og mótið gaf góð fyrirheit um það sem koma skal í aðalmótinu.
Skipulag gekk nokkuð vel og náði að halda tempóinu á ca. 20 mínútur per umferð sem er ansi vel af sér vikið fyrir 170+ manna hraðskákmót!
Nánari úrslit má finna á Chess-Results.