Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands, Ásdís Rósa Baldursdóttir og Kristján Gíslason stofnendur Hringfarans, hjónin Aðalbjörg Jónasdóttir og Helgi Árnason, Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Hrannar Björn Arnarsson

Miðvikudaginn 9. apríl úthlutaði Styrktarsjóður Hringfarans fimm milljónum króna til barna- og unglingastarfs Skáksambands Íslands.

Hjónin og „Hringfararnir Ásdís Rósa Baldursdóttir og Kristján Gíslason tileinka styrkinn Helga Árnasyni, fyrrverandi skólastjóra og skákfrömuði. Helgi hefur á síðustu 30 árum unnið ómetanlegt starf við uppbyggingu skáklistarinnar á Íslandi. Vilja þau hjón með þessari úthlutun heiðra Helga fyrir hans mikla framlag og óeigingjarnt starf í þágu skáklistar barna og unglinga. Skáksjóður Helga Árnasonar var stofnaður af þessu tilefni þar sem Helgi er formaður sjóðsstjórnar.

Við móttökuathöfn f.v. Helgi Árnason, Kristján Gíslason og Ásdís Rósa Baldursdóttir

Fjölmargir gestir voru viðstaddir athöfn á heimili þeirra hjóna þar sem stofnun sjóðins fór formlega fram. Meðal gesta voru borgarstjórahjónin Heiða Björg Hilmisdóttir og Hrannar Björn Arnarsson, forystumenn Skáksambandsins, fjölskylda og vinir.

Styrktarsjóður Hringfarans hefur einbeitt sér að forvarnarverkefnum vegna vímuefnaneyslu íslenskra ungmenna auk menntunar afrískra barna. Við teljum að það sé mikil forvörn fólgin í því að ungt fólk taki þátt í íþrótta-og félagsstarfi af hvaða tagi sem er og erum þess fullviss að þátttaka í skákststarfi efli og styrki ungviðið.

Samtals hefur sjóðurinn úthlutað 37 milljónum króna til góðgerðarmála.

Ljósmyndir: Baldur Kristjánsson

 

- Auglýsing -