Skákkeppni fyrirtækja og stofnana fór fram síðastliðinn miðvikudag. Mótið hafði legið í dvala um árabil en var hér í gamla daga eitt fjölmennasta og best sótta skákmót á dagskrá Taflfélags Reykjavíkur. Endurvakning mótsins gekk vel, en 10 skáksveitir mættu til leiks, eða rúmlega 30 manns, en þrír kepptu fyrir hvert lið. Þar af mátti einn vera lánsmaður. Tefldar voru sjö umferðir eftir swissnesku kerfi. Skoðum helstu niðurstöður mótsins! Ingvar Þór Jóhannesson tók myndir af verðlaunahöfum.

Í þriðja sæti varð sveit Árvakurs með 14 vinninga. Fyrir Árvakur tefldu Baldur Kristinsson, Magnús Teitsson og Jon Olav Fivelstad.

Í öðru sæti varð sveit Deloitte með 14.5 vinning. Þar tefldu Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Ólafur Evert Úlfsson og Jóhann Óli Eiðsson.

Öruggir sigurvegarar urðu Car rental Iceland. Þar var sterkur lánsmaður, Björn Þorfinnsson! Ásamt feðgunum Erni Leó Jóhannssyni og Jóhanni Ingvasyni. Hver veit nema gerð verði ákveðin „Björnsregla” fyrir næsta mót, einhvers konar stigaþak á lánsmanninn! Glæsilegur sigur hjá þeim, 17.5 vinningur. Feðgarnir taka gamla bikarinn með sér og fá svo nafn bílaleigunnar grafið á nýja bikarinn sem verður tilbúinn að ári!
Verðlaun í 1.-3. sæti var áskrift að VignirVatnar.is en Vignir og félagar lentu sjálfir í 4. sæti í mótinu.
Lokastaðan eftir 7 skákir | ||||||||
Sæti. | Byrj.röð | Lið | Skákir | + | = | – | TB1 | TB2 |
1 | 1 | Car Rental Iceland | 7 | 7 | 0 | 0 | 17.5 | 14 |
2 | 5 | Deloitte | 7 | 4 | 1 | 2 | 14.5 | 9 |
3 | 4 | Árvakur hf. | 7 | 3 | 2 | 2 | 14 | 8 |
4 | 2 | VignirVatnar.is | 7 | 5 | 1 | 1 | 13.5 | 11 |
5 | 3 | Bjartur & Veröld bókaútgáfa | 7 | 4 | 0 | 3 | 13.5 | 8 |
6 | 6 | Verzlunarskóli Íslands | 7 | 3 | 2 | 2 | 13 | 8 |
7 | 8 | Seðlabanki Íslands | 7 | 2 | 1 | 4 | 6.5 | 5 |
8 | 7 | Borgarholtsskóli | 7 | 0 | 3 | 4 | 4.5 | 3 |
9 | 10 | Eignamiðlun fasteignasala | 7 | 0 | 1 | 6 | 4.5 | 1 |
10 | 9 | Advania | 7 | 1 | 1 | 5 | 3.5 | 3 |
Veitt voru tvenn aukaverðlaun. Besta lið án lánsmanns (sem ekki var núþegar í verðlaunasæti) varð Verzlunarskólinn og fengu liðsmenn 10 skipta kort á vikulegu mótin í TR.
Einnig voru veitt verðlaun fyrir besta stigalausa liðið en þar vann Eignamiðlun og fékk að launum tímaritið Skák. Rögnvaldur Örn Jónsson á fyrsta borði gerði sér lítið fyrir og vann Björn Þorfinnsson í lokaumferðinni, eina tapskák Björns.
TR þakkar öllum þátttakendum og fyrirtækjum fyrir góða keppnisgleði og stuðninginn, og mótið er komið til að vera (aftur!) í starfi TR. Mótsstjórar voru Ingvar Þór Jóhannesson og Gauti Páll Jónsson, og skákstjóri var Daði Ómarsson.
(ps. Jón Torfason liðsfélagi undirritaðs í Bjarti og Veröld og einn yfirlesara tímaritsins Skákar sýndi góða takta og fékk 6.5 vinning af 7 mögulegum!)
Mótið á chess-results: https://chess-results.com/tnr1149933.aspx?lan=1&art=0&rd=7
Höfundur: Gauti Páll Jónsson
Eftirfarandi myndir frá mótinu tók Daði Ómarsson.