Umf. Fjölnir í Grafarvogi heiðraði það afreksfólk innan félagsins sem hver deild valdi sem íþróttamenn ársins 2019. Þau Hrund Hauksdóttir og Dagur Ragnarsson voru fulltrúar skákdeildarinnar og hlutu viðurkenningu við hátíðalega athöfn í Eglishöll.
Dagur Ragnarsson helgaði sig skáklistinni veturinn 2018 – 2019 með góðum árangri. Hann byrjaði árið 2019 með sigri á IM flokki á skákmóti í Kanada þar sem hann rauf 2400 stiga múrinn og náði í annan áfanga alþjóðlegs skákmeistara.
Á Alþjóðlega skákmótinu Reykjavík Open 2019 í Hörpunni náði Dagur góðum árangri og afrekaði m.a. að vinna franska stórmeistarann Matthien Cornette í einstaklega vel-tefldri skák.
Það munaði sannarlega um liðsinni Dags þegar A sveit Fjölnis náði 3. sæti á Íslandsmóti skákfélaga 2019, hársbreidd frá sigri.
Hápunktur skákársins hjá Degi var þegar hann var valinn í íslenska skáklandsliðið yngstur liðsmanna. Hann tefldi með landsliðinu á EM skáklandsliða í Batuni í Georgíu.
Hrund Hauksdóttir hefur teflt nánast óslitið frá 7 ára aldri og hægt en stígandi fest sig í hópi bestu skákkvenna Íslands. Hrund hefur tvívegis teflt með íslenska kvennalandsliðinu á Ólympíu- og Evrópumeistaramóti, meðal annars þegar Evrópumeistaramót landsliða var haldið í Laugardalshöll árið 2015. Haustið 2019 hefur verið Hrund hagstætt á skákferlinum og engin íslensk skákkona hækkað eins mikið á skákstigum sem hún. Hrund vann sigur á U2000 skákmóti TR í opnum flokki og náði frábærum árangri á alþjóðlega skákmótinu í Hasselbacken í Stokkhólmi í byrjun nóvember. Þar lenti Hrund í 3. sæti kvenna í opnum flokki og sigraði örugglega í sínum skákstigaflokki.















