
Skákdeildir Breiðabliks og Fjölnis stóðu fyrir skákferðalagi 35 ungmenna á alþjóðlegt helgarskákmót í Gautaborg í Svíþjóð um síðustu helgi en þar var teflt í tveim styrkleikaflokkum. Fyrirkomulag mótsins var með þeim hætti að fyrst voru tefldar fjórar atskákir og síðan fjórar kappskákir. Það var því í nógu að snúast alla þrjá keppnisdagana. Árangurinn var framar vonum því að alls hækkuðu íslensku þátttakendurnir samtals um 658 elo-stig.
Í efri styrleikaflokknum var Vignir Vatnar Stefánsson nálægt því að bera sigur úr býtum en hann tapaði fyrir Johnny Hector í úrslitaskák lokaumferðar, hlaut 6 vinninga af átta mögulegum og varð í 6.-12. sæti, jafn Stephani Briem. Í neðri styrkleikaflokknum voru stúlkur úr skákdeild Fjölnis í miklum meirihluta meðal íslensku keppendanna og unnu marga eftirtektarverða sigra.
Meðal keppenda í Gautaborg voru nokkrir þekktir norrænir meistarar. Þar fór fremstur Simen Agdestein. Hann háði mikla glímu við tvo af íslensku keppendunum; í atskákhlutanum tefldi hann baráttuskák við Birki Ísak Jóhannsson sem lauk með því að Simen féll á tíma eftir 47 leiki. Í 6. umferð mætti hann svo Stephani Briem. Er skemmst frá því að segja að Stephan tefldi frábærlega vel gegn Norðmanninum og átti unnið tafl á löngum kafla. En Simen er harður keppnismaður og í tímahraki beggja tókst honum að bjarga sér fyrir horn og vinna að lokum. Síðasta færi Stephans til að knýja fram vinning kom í þessari stöðu:
Kvibergspelen 2022; 6. umferð:
Simen Agdestein – Stephan Briem
36. … De7?
Svarta staðan er ekki slæm eftir þennan leik en 36. … Df4 vinnur strax! Við hótuninni 37. … Hxe2 er engin vörn, t.d. 37. Rxb7 Hc3+ 38. Kd1 Re3+ 39. Ke1 Dg3 mát. Simen lék nú …
37. Bc4
… og þá var mesta hættan liðin hjá. Skákinni lauk svo eftir 55 leiki.
Fimm íslensk lið á EM skákfélaga
Frammistaða íslensku skákfélaganna sem taka þátt í EM taflfélaga í Austurríki hefur verið að vonum en barátta Jóhanns Hjartarsonar, Margeirs Péturssonar og Guðmundar Kjartanssonar við nokkra af fremstu stórmeisturum Indverja hefur vakið athygli. Skák Margeirs við hinn unga Nihal Sarin var afar viðburðarík. Nokkrir óvæntir leikir og endalok þar sem Indverjinn varð að láta drottningu sína af hendi eftir flókna byrjun:
EM skákfélaga 2022; 2. umferð:
Margeir Pétursson – Nihal Sarin
Enskur leikur
1. c4 e5 2. g3 c6 3. Rf3 e4 4. Rd4 d5 5. cxd5 Dxd5 6. e3 Rf6 7. Bg2 Bg4 8. Dc2 Ra6 9. a3 Rc5 10. Rc3 Dh5
10. … Rd3+ hefði verið svarað með 11. Dxd3! exd3 12. Rxd5 og hvíta staðan er betri, en 10. … Dc4 var athyglisverður möguleiki.
11. h3
Kannski missti Margeir af besta tækifæri sínu í þessari stöðu, 11. Rxe4! Rfxe4 12. b4! o.s.frv. eða 11. … Rcxe4 12. Bxe4 og svartur hefur litlar bætur fyrir peðið.
11. … Bf3?! 12. Bxf3 exf3 13. b4 Re6 14. Rf5 g6 15. g4 Dg5 16. Rg3 Bg7 17. Bb2 Dh4 18. Rce4 O-O 19. Rxf6 Bxf6 20. Re4 Bxb2 21. Dxb2 Hfd8 22. Hg1 Rg5 23. Df6

Furðuleg staða. Næsti leikur Sarins kom eins og þruma úr heiðskíru lofti…
23. … Rxe4! 24. Dxh4 Hxd2 25. De7 He2+ 26. Kd1 Rxf2+ 27. Kc1 Rd3+ 28. Kd1 Rf2+ 29. Kc1 Rd3+ 30. Kd1
– og hér sömdu keppendur jafntefli. Það er ekkert meira að hafa úr stöðunni en þráskák.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 8. október 2022.













