Í toppbaráttunni á Sardiníu Vignir Vatnar við taflið á síðasta Reykjavíkurskákmóti. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Ég fylltist nokkru stolti þegar ég fylgdist með Vigni Vatnari Stefánssyni í beinni útsendingu á Chess24.com er hann sat á efsta borði á heimsmeistaramóti unglinga 20 ára og yngri í skák þriðju umferðar gegn Rússanum Andrei Esipenko á fimmtudaginn. Esipenko er langstigahæsti keppandi mótsins með 2.668 elo-stig og státar m.a. af sigri í kappskák gegn Magnúsi Carlsen á stórmótinu í Wijk aan Zee í fyrra.

Mótið fer fram við frábærar aðstæður á ítölsku eynni Sardiníu. Heimsmeistaramót unglinga 20 ára og yngri er gríðarleg þolraun og verður gaman að fylgjast með því. Sl. fimmtudag fóru fram tvær umferðir en gert er ráð fyrir einum frídegi. Tefldar verða ellefu umferðir.

Auk Vignis er Birkir Ísak Jóhannsson meðal þátttakenda og þeir hafa báðir byrjað vel. Vignir, sem er skráður nr. 24 á styrkleikalistanum af 120 keppendum, vann fyrstu tvær skákir sínar og síðan kom þessi erfiða barátta, seinni skák eina keppnisdagsins með tvær umferðir. Úr varð magnaður skákviðburður. Það var ekki auðvelt að halda jafnvægi í því flókna miðtafli sem kom upp eftir frekar mislukkaða byrjun Vignis en hann reyndist útsjónarsamur eins og stundum áður:

HM unglinga á Sardiníu 2022; 3. umferð:

Vignir Vatnar Stefánsson – Andrei Esipenko

Nimzo-indversk vörn

1. Rf3 d5 2. d4 Rf6 3. c4 e6 4. Rc3 Bb4 5. e3 0-0 6. Bd2

Þessi skrýtni leikur hefur verið vinsæll undanfarið. En Esipenko var öllum hnútum kunnugur. Vandi Vignis var sá að hann gat lítið undirbúið sig fyrir skákina eftir erfiða baráttu um morguninn.

6. … b6 7. cxd5 exd5 8. Bd3 He8 9. 0-0 Bd6 10. Dc2 c5 11. b3?!

Fyrsta ónákvæmnin. Fyrst hvítur ákvað að tefla á móti „hangandi peðunum“ var rökréttara að leika 11. dxc5 strax og láta þetta peð eiga sig.

11. … Rc6 12. dxc5 bxc5 13. a3 Bg4!

Svartur er þegar kominn með mun betri stöðu.

14. Re2 Bxf3 15. gxf3 Re5 16. Kg2 Dd7 17. Rg3 Db7 18. Hab1 Had8 19. Hfd1 d4 20. e4

– Sjá stöðumynd –

20. … Rxd3

Hann var með alla þræði í hendi sér og þurfti ekki að flýta þessum uppskiptum. 20. … Rg6 kom sterklega til greina.

21. Dxd3 Rd7 22. f4 Rf8 23. f3 Rg6 24. e5 Bf8 25. He1 Dd5 26. Kf2 Hb8 27. De4 Dd7 28. Df5 Dd5 29. De4 Dd8 30. Rf5 Dd7 31. h4

Þenur út yfirráðasvæði sitt þótt staðan sé æði viðkvæm.

31. … h5 32. Rg3 a5 33. a4 c4 34. bxc4 Hxb1 35. Dxb1 Bb4

35. … Dxa4 mátti svara með 36. e6! Esipenko hafði bundið vonir sínar við þennan leik en Vignir sá sér leik á borði…

36. e6! Hxe6 37. Hxe6 Dxe6

Hann sá að 37. … Bxd2 má svara með 38. Db8+!, t.d. Kh7 39. Hxg6! Kxg6 (ekki 39. … fxg6 40. Re4! og hvítur vinnur) 40. De5! Og hvíta staðan er unnin þó að flækjustigið sé vissulega hátt eftir 40. …Be3+ 41. Kg2 Kh7 42. Dxh5+ Kg8 43. Dxa5 d3 44. Rf1!

38. f5 De8! 39. fxg6

Alls ekki 39. Bxb4 vegna 39. … De3+! og svartur vinnur.

39. … Bxd2 40. gxf7+ Dxf7 41. Db5 d3

– og Esipenkio bauð jafntefli sem Vignir þáði. Framhaldið gæti orðið: 42. Dxh5 Dxc4 43. De8+ Kh7 44. De4+ Dxe4 45. Rxe4 Bf4 46. Rc5 Bg3+! og svartur nær h-peðinu og staðan er dautt jafntefli.

Vignir sat eftir þessa skák í 6.-19. sæti með 2½ vinning en Birkir Ísak var með 1½ vinning eftir góðan sigur í 3. umferð. Fyrir mótið var hann skráður í 91. sæti á keppendalistanum.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 15. október 2022.

- Auglýsing -