Þau Lenka Ptacnikova og Guðmndur Kjartansson eru efst með 2,5 vinning að þremur umferðum loknum á Skákþingi Íslands. Bæði unnu þau sínar viðureignir í dag á meðan að Hannes Hlífar lagði Henrik Danielsen að velli sem var einn í forystu fyrir umferðina.

Enn voru svörtu mennirnir í aðalhlutverki en fjórar skákir unnust á svart og hafa nú unnist átta skákir á svart en aðeins tvær með hvítu!

GM Hannes Hlífar Stefánsson (1) – GM Henrik Danielsen (2)

Henrik tefldi Petroff vörn gegn 1.e4 hjá Hannesi. Hannes bauð upp á námskeið í notkun á biskupaparinu og tefldi algjöra módelskák. Hann beið spakur átekta, biskuparnir „lúrðu“ og svo jafnt og þétt notaði Hannes peðin til að opna fyrir parinu. Hannes jafnar þar með Henrik að vinningum og opnar mótið upp á gátt.

 

GM Hjörvar Steinn Grétarsson (1) – GM Guðmundur Kjartansson (1½)

Þung skák í ítalska leiknum þar sem framan af skildi lítið á milli. Hjörvar vann peð í endataflinu en var með klaufalega menn á kostnað peðsins. Ljóst var þó að svartur átti litla sem enga vinningssénsa og því algjörlega galin ákvörðun í 41. leik hjá Guðmundii að hafna þráleik sem var í boði.

Þess í stað fékk Hjörvar sénsinn og var með kolunnið peðsendatafl í höndunum eftir 46…Rc4??

Hjörvar hugsaði í 5 mínútur en yfirsást eitthvað. Liklega hefur hann verið hræddur við 47.Rxc4 bxc4 48.Ke3 c5!? þar sem hvítur þarf að finna 49.b5 og búa svo til frelsingja á kóngsvæng með f4. Önnur afbrigði þar sem svartur leikur ekki …c5 eru léttunnin eftir b3 framrásina.

Hjörvar missti svo þráðinn og missti skákina úr jafntefli í tap. Ótrúleg niðurstaða.

GM Jóhann Hjartarson (1) – GM Vignir Vatnar Stefánsson (1)

Vignir tefldi byrjunina hratt að vanda og fékk stöðu sem hann þekkir vel í drottningarbragði. Vignir fór langleiðina í að jafna taflið og svo virtist hann einfaldlega yfirspila Jóhann í endataflinu og vann ótrúlega „smooth“ sigur.

Jóhann Ingvason (½) – Lenka Ptácníková (1½)

Lenka er efst eftir sigur gegn Jóhanni Ingvasyni í þriðju umferðinni. Lenka hefur byrjað mótið ansi vel og teflt vel. Einkum hefur það þó verið bætt tímanotkun en Lenka hefur sloppið við tímahrak að mestu á þessu móti það sem af er.

Skákin gegn Jóhanni var góð, Lenka var með stakt peð en mjög virka menn. Virknin hafði úrslitaáhrif á endanum og góður sigur í höfn hjá Lenku.

IM Hilmir Freyr Heimsson (1) – IM Dagur Ragnarsson (½)

Hilmir lagði allt í sölurnar i byrjuninni, fórnaði peði og tefldi dýnamískt…eins og honum hentar yfirleitt vel. Dagur hékk á peðinu og virtist vera að takast að stoppa frumkvæði hvíts. Hann átti svo „Puzzle Rush“ sleggju hér:

35…Dxg2!! hefið verið nett en í staðinn fékk Dagur endatafl sem virtist vænlegt með umframpeð en náði ekki að gera sér mat úr því.

GM Bragi Þorfinnsson (½) – FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson (½)

Aleksandr náði ser loks á strik með góðri skák gegn Braga. Með svörtu, vélaði Aleksandr peð af braga í miðtaflinu og sigldi svo sigrinum heim.

Guðmndur og Lenka með 2,5 vinning og svo koma Hannes, Henrik og Vignir með 2 vinninga. Mótið rétt að byrja og of snemmt að spá í spilin og mikið.

Allir skákirnar eru í beinni (þó með 15 mínútna seinkun) og beinar lýsingar á YouTube.

Útsendingar á netinu hefjast því ekki fyrr en kl. 15:15. Skýringar á milli 16 og 16:30.

Styrktaraðilar mótsins eru

  • Hafnarfjarðarkaupstaður
  • Algalíf
  • Teva
  • Lengjan
  • Guðmundur Arason
  • MótX

Tenglar

- Auglýsing -