Helgi Áss að tafli.

Þrír Íslendingar tefla á Leca Chess Open 2023 í Porto, Portúgal. Þeir eru: GM Vignir Vatnar Stefánsson (2487), GM Helgi Áss Grétarsson (2475) og Stefán Bergsson (2169). Vignir er númer 6 í styrkleikaröð, Helgi Áss númer 7 og Stefán Bergsson númer 38. Alls er 171 skákmaður skráður til leiks á mótið. Í dag var tefld tvöföld umferð.

Vignir vann í fyrstu umferð og fékk spænskan FIDE meistara í annarri umferð, Ivan Cabezas Ayala (2252). Vignir hafði hvítt og fékk mjög þægilegt miðtafl með rjómariddara gegn atvinnulausum biskup. Vignir breytti því í endatafl þar sem hann var tveimur peðum yfir. Úrvinnslu var þörf í drottningarendataflinu en Vignir leysti það vel.

Í seinni skákinni fékk Vignir svart á franskan alþjóðlegan meistara Tomas Dionisi (2401). Sá franski setti töluverða pressu á Vigni sem þurfti að hafa sig allan í frammi í vörninni. Á tíma var staða Vignis líklega töpuð en hann sýndi mikla seiglu og hélt jafnteflinu.

Helgi Áss vann einnig í fyrstu umferðinni og hann mætti franska FIDE meistaranum Florent Samoun (2267). Helgi beitti modern byrjuninni gegn 1.e4 og fékk fína stöðu. Í miðtaflinu missti sá franski móðinn full fljótt og mannsfórn á b5 var ekki góð hugmynd. Helgi refsaði fljótt og vann góðan sigur.

Í þriðju umferðinni fékk Helgi Indverjann Kumar Prudhvi (2076). Helgi hafði hvítt og tefldi tæknilega flotta skák. Indverjinn fékk verra eftir byrjunina, hafði stakt peð og Helgi hafði biskupaparið. Pressan gaf Helga svo peð og loks klára Helgi með „Fréttablaðsleik“.

Stefán fer brösulega af stað. Eftir jafntefli í fyrstu umferðinni tapaði hann fyrir Indverjanum Sri (1902). Stefán mætti AFM Henrik Soderstrom (1625) í þriðju umferðinni en ekki var búið að uppfæra úrslit á chess-results.

- Auglýsing -