Þrír Íslendingar tefla á Leca Chess Open 2023 í Porto, Portúgal. Þetta eru: GM Vignir Vatnar Stefánsson (2487), GM Helgi Áss Grétarsson (2475) og Stefán Bergsson (2169). Vignir er númer 6 í styrkleikaröð, Helgi Áss númer 7 og Stefán Bergsson númer 38. Alls er 171 skákmaður skráður til leiks á mótið. Í dag fór fram fjórða umferð. Mótið er keyrt áfram á sama tempói og Reykjavíkurskákmótið, 9 umferðir á sjö dögum.
Helgi Áss var efstur Íslendingana fyrir umferðina með 3 vinninga af 3 mögulegum. Í fjórðu umferðinni fékk Helgi svart á indverska stórmeistarann N R Vikash (2536). Tefldur var Pirc og var Helgi með trausta stöðu en örlítið passífa. Indverjinn náði smá pressu í miðtaflinu en Helgi virtist vera að bægja hættunni hjá en lék þá af sér. Indverjinn komst peði yfir í endatafl og vörnin orðin erfið hjá Helga. Fór svo að Indverjinn hafði betur.
Vignir hafði 2,5 vinning af 3 og mætti einnig Indverja, O Kushal (2294). Vignir hafði hvítt og fékk ekki úr miklu að moða í byrjuninni. Einhvern veginn tókst Vigni að komast í endtafl peði yfir. Mikil tæknileg úrvinnsla var þó eftir og líklega mjög erfitt að vinna stöðuna ef vinning var að finna. Fór svo að kóngur hvíts var of berskjaldaður og svartur náði þráskák.
Vignir því með 3 vinning af 4 eins og Helgi Áss.
Stefán vann seinni skák sína í gær gegn AFM Henrik Soderstrom (1625) í þriðju umferðinni og hafði því 1,5 vinning af 3 fyrir daginn. Í fjórðu umferðinni fékk hann portúgalskan andstæðing Raquel dos Santos Duque (1608) og hafði svart. Stefán náði tiltölulega einföldum riddaragaffli í miðtaflinu og staða hvíts hrundi hratt eftir það.
Stefán því kominn með 2,5 vinning af 4.
Á morgun er svo aftur tvöföld umferð hjá strákunum.
- Chess-Results
- Beinar útsendingar (lichess)
- Beinar útsendingar (chess.com)
- Heimasíða mótsins













