Jóhann Ingvason (2164) vann stórmeistarann Braga Þorfinnsson (2445) í fjórðu umferð Íslandsmótsins í dag. Fyrr í mótinu gerði Jóhann jafntefli við tólffalda Íslandsmeistarann Hannes Hlífar Stefánsson (2541). Jóhann er efstur með 3½ vinning ásamt Hannesi, Helga Áss Grétarssyni (2460) og bandaríska alþjóðlega meistaranum Justin Sarkar (2297).
Hannes vann Lenku Ptácníková (2230) en Helgi Áss vann lagði Þröst Þórhallsson (2416) að velli á fyrsta borði.
Óvænt úrslit setja svip sinn á mótið og þar má nefna að Aron Þór Mai (2033) vann FIDE-meistarann Sigurbjörn Björnsson (2295).
Úrslit fjórðu umferðar má finna á Chess-Results.
Eins og fyrr sagði eru fjórir skákmenn efstir og jafnir með 3½ vinning. Fimm skákmenn hafa 3 vinninga og meðal þeirra eru stórmeistararnir Héðinn Steingrímsson (2583) og Þröstur.
Stöðuna má nálgast á Chess-Results.
Fimmta umferð fer fram á morgun og hefst kl. 16:30. Þá teflir Hannes við Sarkar og Helgi Áss við Jóhann, sem teflir við sinn þriðja stórmeistara á mótinu. Athyglisverð viðureign er svo á fimmta borði þar sem, þriðji stigahæsti keppandi mótsins, Jón Viktor Gunnarsson (2472) mætir, þeim stigahæsta, Héðni Steingrímssyni (2583).
Pörun fimmtu umferðar má finna á Chess-Results.
Allar skákir morgundagsins nema ein verða sýndar beint á vefsíðu mótsins.

Fyrir þá sem eru með snjallsíma og vilja fylgjast með mælir ritstjóri með forritunum (öppunum) Follow Chess og Chess24. Best er þó að mæta á skákstað og drekka í sig stemminguna þar. Frítt kaffi á könnunni og tilvalið að skoða minningarvegginn um Hemma Gunn.








