Þröstur og Héðinn

Stórmeistarinn, Þröstur Þórhallsson (2416), vann Héðin Steingrímsson (2583) í 3. umferð Íslandsmótsins í skák sem fram í Valsheimilinu í gær á laglegan hátt.  Eftir 20 leiki kom þessi staða upp eftir 20…g4?

Þröstur svaraði um hæl með 21. De4!! Héðinn er varnarlaus vegna hótananna 22. Dxc6 og Dg6+. Héðinn reyndi 21…gxf3 en eftir 22. Dg6+ Kh8 23. Dh6+ Kg8 24. gxf3 er er svartur algjörlega varnarlaus og gafst upp nokkrum leikjum síðar. Skákina má finna hér. Þröstur er einn efstur með fullt hús.

Lenka Ptácníková (2230) og Bragi Þorfinnsson (2445) gerðu jafntefli og mátt sá síðarnefndi teljast ljónheppninn að hanga á jafnteflinu gegn kvennastórmeistaranum. Hannes Hlífar Stefánsson (2541) þurfti mikið að hafa fyrir sigri gegn Baldri A. Kristinssyni (2219) sem var afar nærri því að halda jöfnu.

Úrslit þriðju umferðar má finna á Chess-Results.

Sjö skákmenn eru í 2.-8. sæti með 2½ vinning. Í þeim hópi eru stórmeistararnir Bragi, Hannes og Helgi Áss Grétarsson (2460) og Lenka, stórmeistari kvenna.

Stöðuna má nálgast á Chess-Results.

Fjórða umferð fer fram í dag og hefst kl. 16:30. Þá mætast Helgi Áss og Þröstur, Lenka og Hannes og Bragi mætir Jóhanni Ingvasyni.

Röðun fjórðu umferðar má finna á Chess-Results.

20 af 23 skákum dagsins verða sýndar beint á vefsíðu mótsins.

Fyrir þá sem eru með snjallsíma og vilja fylgjast með mælir ritstjóri með forritunum (öppunum) Follow Chess og Chess24. Best er þó að mæta á skákstað og drekka í sig stemminguna þar. Frítt kaffi á könnunni og tilvalið að skoða minningarvegginn um Hemma Gunn.