Lenka Íslandsmeistari kvenna í 12. sinn! Mynd: JHR

Lenka Ptácníková (2099) varð í kvöld Íslandsmeistari kvenna í tólfta sinn í kvöld er hún tryggði sér sigur á Íslandsmóti kvenna með góðum sigri á Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur (1933) í lokaumferðinni. Níundi Íslandsmeistaratilinn Lenku í röð! Mótið var haldið við glæsilegar aðstæður í Sveinatungu í Garðabæ.

Lisseth Acevedo Mendez (1849), fulltrúi heimamanna í Garðabæ, varð í öðru sæti. Glæsilegur árangur hjá Liss sem sem nýlega öðlaðist rétt til að tefla fyrir Íslands hönd.

Verðlaunahafar ásamt forzeta SÍ og formanni TG.

Hrund Hauksdóttir (1804), Guðlaug Þorsteinsdóttir (1994) og Jóhanna Björg urðu í 3.-5. sæti. Hrund fékk bronsið eftir oddastigaútreikning. Þær skipta með sér þriðju peningaverðlaunum.

Við upphaf umferðarinnar fór fram verðlaunafhending vegna áskorendaflokks. Batel Goitom Haile vann þar sigur og hefur tryggt sér keppnisrétt í landsliðsflokki að ári. Guðrún Fanney Briem varð önnur og Iðunn Helgadóttir þriðja.

Batel tekur við sigurlaununum úr höndum Sindra formanns TG. Iðunn til hægri og Jóhanna Björg, skákkennari Guðrúnar Fanneyjar, tók við við verðlaunum fyrir hennar hönd

Mótið var haldið semeiginlega af Skáksambandinu og Taflfélagi Garðabæjar sem fagnar 40 ára afmæli í ár.

Yfirdómari mótsins var Páll Sigurðsson. Ásamt honum fá Sindri Guðjónsson, formaður TG, Bjarnsteinn Þórsson, Jóhann H. Ragnarsson, og Sóley Lind Pálsdóttir, þakkir fyrir vel unnin störf við mótshaldið sem var að langmestu leyti á herðum Taflfélags Garðabæjar.

Landsliðs- og áskorendaflokkur Skákþings Íslands fara fram í Sveinatungu 28. mars – 5. apríl nk.