Ólympíuskákmótið fer fram í Batumi í Georgíu dagana 24. september – 5. október nk. Ísland sendir lið bæði í opnum flokki og kvennaflokki.

Það eru þó ekki einu fulltrúar Íslands því Omar Salama verður einn yfirdómara mótsins (Deputy Chief Arbiter) eins og sjá má um heimasíðu FIDE. Omar verður yfir opna flokknum. Yfirdómari mótsins alls verður hinn þrautreyndi Grikki, Takis Nikolopoulos.

Mikil viðurkynning fyrir Omar sem í dag er einn virtasti skákdómari heims sem sýnir sig t.d. þegar hann var valinn til að vera “á sviðinu” á heimsmeistaramótinu í hraðskák í Sádi Arabíu í desember sl. eins og lesa má um í skákþætti Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu.

Auk Omars verða Ingibjörg Edda Birgisdóttir og Kristján Örn Elíasson fulltrúar Íslands í dómaraliði mótsins.

Skákáhugamenn verða hins vegar að bíða lengur eftir því hverjir tefla fyrri Íslands hönd en það verður tilkynnt í lok næstu viku.

- Auglýsing -