Jóhann tapaði fyrir Evrópumeistaranum. Mynd: Heimasíða mótsins

Stórmeistarinn, Jóhann Hjartarson (2523), tapaði fyrir Evrópumeistaranum Ivan Saric (2689) í fimmtu umferð Xtracon-mótsins í gær. Saric reyndist klókur með riddarana og þurfti Jóhann að játa sig sigraðann fljótlega eftir tímamörkin.

Jóhannn er engu að síður efstur íslensku keppendanna átta með 4 vinninga. Jóhann Ingvason (2189) er næstur með 3½ vinning. Örn Leó Jóhannsson (2196), Hilmir Freyr Heimisson (2241) og Aron Þór Mai (2119) hafa 3 vinninga.

Saric er efstur ásamt Norðmönnunum Jon Ludvig Hammer (2631) og Simen Agdestein (2581).

Jóhann mætir í dag bandaríska alþjóðlega meistaranum Craig Hilby (2426). Auk hans verður nafni hans Ingvarsson í beinni en hann mætir danska alþjóðlega meistaranum Martin Haubro (2373).

Jan Timman (2555) fær í dag hinn Mai-bróðurinn, Aron Þór (2119), en fyrr á mótinu tefldi hann við Alexander Oliver.

Stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson (2536) gerði jafntefli við Þjóðverjann Alex Dac-Vuong Nguyen (2175) í fimmtu umferð opna tékkneska mótsins. Hannes hefur 2 vinninga.

FIDE-meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson (2277) gerði jafntefli við Grikkjann Konstantinos Samaridis (2103) í 8. og næstsíðustu umferð á álþjóðlegs móts á Krít og hefur 5 vinninga. Mótinu lýkur í dag.

- Auglýsing -