Timur Gareev er bandarískur stórmeistari sem fæddist í Úzbekistan. Það verður seint sagt um hann að hann sé eins og fólk er flest og besta leiðin til að lýsa honum væri e.t.v. á engilsaxnesku “free spirit”. Timur hefur mikið einbeitt sér að blindskák og afrekum tengdum blindskák. Hann á t.d. heimsmet í blindskákfjöltefli en hann atti kappi við hvorki fleiri né færri en 48 andstæðinga blindandi í Las Vegas árið 2016.

Gareev verður einnig að teljast ansi hugmyndaríkur skákmaður og hann sækir innblástur sinn svo sannarlega ekki í jafnteflisskákir hjá Giri og Karjakin! Gareev teflir mjög frumlega á köflum og stundum mætti segja að hann fari jafnvel yfir strikið! Á dögunum atti hann kappi við Fedja Zulfic, 2179 stiga skákmann á móti í Ástralíu.

Óhætt er að segja að snemma hafi stefnt í frumlegheit því strax eftir 3 leiki var komin upp staða sem aldrei hefur komið upp áður á kappskákmóti. Kíkjum á þessa snörpu skák…

Hvítt: Timur Gareev (2611)
Svart: Fedja Zulfic (2179)

1.g4

Gareev opnar taflið með Grob’s byrjun. Þessi byrjun hefur ekki góðan orðstír. Fyrir áhugasama er hér þó skemmtileg skák þar sem franski “streamerinn” Kevin Bordi aka Blitzstream beitir 1.g4 gegn heimsmeistarnum á sterku netmóti:

1…h5

Fedja Zulfic sýnir strax í fyrsta leik að þetta verður ekkert eins manns partý! Zulfic er klár í að taka slaginn í “vitleysunni” með Gareev frá fyrsta leik! Gegn 1.b4 er 1…a5 leikur sem oft hefur verið leikið en gegn 1.g4 er hann ekki jafn rökréttur þar sem stutthrókun er að jafnaði líklegasta skjól kóngsins í skák.

2.g5 h4 3.g6!?

Gareev fórnar peði (hann virðist ekki mjög hrifinn af þeim!) en fórnin er að mörgu leiti rökrétt. Svartur fær tvípeð á g-línunni og kóngsvængurinn veikist töluvert. Ef hvítur er á undan á skálínuna b1-h7 er voðinn vís!

3…fxg6 4.Rf3 d5 5.c4

Gareev ræðst á miðborðið og Zulfic afræður að halda því lokuðu

5…d4 6.Hg1

Hvítur notar opnu g-línuna og ræðst á g6 peðið og hefur einnig góð tök á g5 reitnum.

6…Dd6 7.c5

Gareev leiðist svo sannarlega ekki að fórna peðum…í raun er þessi peðsfórn bara inngangurinn að annarri peðsfórn!

7…Dxc5 8.b4!

Zulfic ákveður hér að hafna þriðja peðinu. Hvítur myndi eftir 8…Dxb4 líklegast leik Ra3 og svo Hb1 og mennirnir koma allir út með leikvinningum. Svartur verður að fara að huga að liðsskipan!

8…Dd6 9.Ra3 Hh5!?

Svartur vill ekki verða undir í hugmyndaauðginni og notfærir sér hinar óhefðbundnu aðstæður að geta valdað 5. reitaröðina með hróknum sínum! Hvítur fær samt leikvinninginn sinn.

10.Rc4 Dxb4

Nú afræður svartur að taka peðið á b4 en að þessu sinni setur hann allavega á riddarann á c4 þannig að hvítur þarf að bregðast við því áður en hann vinnur meiri tíma í að setja á drottninguna.

11.e3 dxe3 12.Ba3!?

Mennirnir út með tempóvinningum. Þetta er svo sannarlega í anda gömlu meistaranna. Gareev er gjörsamlega nákvæmlega sama um peðin sín, það er allavega morgunljóst!

12…exd2+

Enn eitt peðið með skák en hvítur heldur áfram að virkja sína menn.

13.Rfxd2

Allt í einu er orðið erfitt að finna reit fyrir drottninguna. 13…Db5 þá 14.Rd6+ og drottningin fellur. Illskást er líklegast 13..Dc3 en eftir 14.Bb2 Db4 15.Bd3 er erfitt að valda g6 peðið og hvítur stendur mun betur.

13…He5+

Svartur reynir að blíðka goðin með því að gefa skiptamun. Hann er jú með urmul af peðum einnig!

14.Be2

“Nei takk” segir Gareev. Af hverju að hirða skiptamun þegar ég get komið manni út? 14.Rxe5 Dxa3 kom alveg til greina einnig og er mögulega betra.

14…Dc3 15.Hc1 Hxe2+!? 16.Dxe2 Dh3

Svarta drottningin er komin í skjól. Svartur hefur 4 peð upp í skiptamuninn en enga liðsskipan. Hvernig metur maður svona stöðu? Tölvuapparatið segir +0.3

17.Hxg6

Kannski allt í lagi að fara að ná í eitthvað til baka!

17…Bf5

Betra var 17…Rf6

18.Dh5!

Skilar skiptamuninum til baka en nú verður svartur örkumla á hvítu reitunum!

18…Kd8 19.Rf3 Bxg6 20.Dxg6

Nú liggur beinast við að drepa á f3 með 20..Dxf3 en þá kemur 21.Re5! og svartur verður að gefa drottninguna þar sem Hd1+ og De8# kemur annars í flestum afbrigðum.

20…Rd7 21.Rg5

Svartur gafst upp enda er hann mát ef hann hreyfir drottninguna vegna Re6+ og De8#

Svo sannarlega einhver óvenjulegasta örskák seinni ára ef ekki allra tíma! Skákin í heild sinni er hér að neðan.

Ítarefni:

Skákin skýrð af GM Simon Williams:

Hér er svo önnur nýleg skák hjá Gareev þar sem hann einmitt fórnar nánast öllum peðunum sínum….meira verður ekki sagt um þá skák!

Mynd: By Blindfoldking – Own work, CC BY-SA 4.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=45561565

- Auglýsing -