Levon Aronian er einn fremsti skákmaður heims í dag. Hann er í uppáhaldi hjá mörgum og er það bæði vegna þess að hann hefur skemmtilegan skákstíl og ekki síður hvað hann er með mikinn persónuþokka og einfaldlega drengur góður. Við áttum smá spjall á Evrópumótinu á Krít 2017 en þá var ég í Boston búning en Levon er einmitt mikill áhugamaður um NBA deildina og vorum við báðir spenntir fyrir komu Kyrie Irving til liðsins. Þegar þarna var komið við sögu lék allt í lyndi hjá Levon. Hann var af mörgum talinn einn af skákmönnum ársins 2017 og í ársbyrjun 2018 var hann yfir 2800 elóstigum og #2 á heimslistanum á eftir Magnus Carlsen og nýbúinn að vinna feykisterkt opið mót á Gíbraltar. Framundan var kandídatamótið í Berlín. Ég og fleiri töldum Levon Aronian líklegastan til afreka þar og jafnframt líklegastan til að geta veitt Carlsen skráveifu í heimsmeistaraeinvíginu ef hann kæmist þangað.

Eins og alþjóð veit átti Aronian skelfilegt mót. Hann lenti snemma móts í svakalegum undirbúningi hjá Kramnik og tapaði í frægri skák gegn heimsmeistaranum fyrrverandi. Síðan þá hefur Aronian verið heillum horfinn meira og minn og fallið niður í 12. sæti á heimslistanum. Vonandi er Levon að endurheimta sitt fyrra form og úrslitin á nýloknu Sinquefield móti benda til þess. Aronian tapaði ekki skák á mótinu og lenti jafn þeim Caruana og Carlsen í efsta sæti. Aronian tryggði sér þetta efsta sæti á mótinu með stórglæsilegum sigri á Rússanum Alexander Grischuk í skák sem sýnir vel af hverju Aronian er svona vinsæll. Hugmyndaauðgi og mikill kjarkur í þrumuleik hans í 18. leik skiluðu sanngjörnum sigri!

- Auglýsing -